Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimm í fangelsi fyrir hrottalega árás í Vogum
Laugardagur 24. júlí 2010 kl. 12:04

Fimm í fangelsi fyrir hrottalega árás í Vogum

Fimm karlmenn hafa verið dæmdir til fangelsisvistar fyrir hrottalega líkamsárás í Vogum á Vatnsleysuströnd aðfaranótt nýársdags árið 2009. Tveir hinna áhkærðu fengu 18 mánaða fangelsinsdóm en þrír tólf mánaða dóm þar sem fresta skal fullnustu 9 mánaða refsingarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins, haldi þeir almennt skilorð almennra hegningarlaga. Þá eru ákærðu dæmdir til að greiða fórnarlambi sínu 808.700 krónur ásamt vöxtum. Það var Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari sem kvað upp dóminn.

Málið sem dómtekið var 15. júní 2010, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 22. janúar 2010 á hendur fimm einstaklingum. Tveir þeirra eru búsettir í Vogum, hinir á höfuðborgarsvæðinu, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, „með því að hafa að morgni fimmtudagsins 1. janúar 2009, í sameiningu veist að fórnarlambi sínu á heimili hans í Vogum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að morgni 1. janúar 2009 kl. 06:10 barst lögreglu tilkynning um líkamsárás í Vogum. Nánar tiltekið hefðu nokkrir menn ráðist á íbúa á 2. hæð fjölbýlishúss í Vogum. Átök hefðu verið á stigagangi og þeim lyktað með því að fórnarlambinu hefði verið kastað fram af svölum.
Í frumskýrslu lögreglu, sem staðfest var fyrir dómi, segir að er lögregla kom á vettvang hafi verið blóð á gangstétt framan við húsið og blóðslóð að íbúð fórnarlambsins á 2. hæð hússins. Járnrör hefði legið á jörðinni neðan við íbúð hans. Lögreglumenn hefðu bankað upp á í íbúðinni en enginn komið til dyra. Lögreglumaður hefði þá opnað hurðina og séð fórnarlambið liggja á gólfinu inni í íbúðinni, blóðugan í framan, og hann hefði kvartað undan eymslum í fótum og baki. Hann hefði virst vankaður og átt erfitt með að tala og illa skilist það sem hann sagði. Hann hefði greint frá því að nokkrir aðilar hefðu ráðist á sig og barið með bareflum og svo hent sér fram af svölunum, en hann hefði náð að skríða upp í íbúð sína við illan leik. Hann kvað einn ákærða hafa verið fremstan í flokki. Lögreglumenn fóru þangað og handtóku ákærða. Enginn sem var gestkomandi þar kvaðst kannast við nein slagsmál. Fórnarlamb árásarinnar var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahús.  

Áverkar fórnarlambsins

Eftirfarandi er úr dómsskjölum: Í vottorði Más Kristjánssonar, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala í Fossvogi, dags. 3. febrúar 2010, segir að fórnarlamb árásarinnar kom á slysa- og bráðadeild 1. janúar 2009 kl. 07:18. Þar segir að hann hafi verið með sár hægra megin á höfði og greinileg merki um áverka á hægra auga. Verulega mikil bólga hafi verið á kinnbeini hægra megin og einnig yfir gagnauganu. Augað hafi virst nokkuð innfallið, en erfitt væri að meta það. Þá hefði hann verið með blóðnasir og blóð á vörum, sem hefði verið storknað. Ekki hefðu verið klár þreifieymsli á hálsi. Við „thoracal“ skoðun hefði hann verið með þreifieymsli vinstra megin í „thorax“ og eymsli vinstra megin ofarlega um miðjan kvið. Þá hefði hann verið með sár á brjóstkassa vinstra megin, um 3x2 cm. Á hægri síðu hefði verið hruflsár, 1x5 cm að stærð. Mar þar fyrir neðan hefði verið um 2x2 cm. Mikil þreifieymsli hefðu verið þarna yfir síðunni og væri ekki útilokað að frekara mar myndi koma fram. Vinstra megin „ant og lat á thorax“ væri hrufl, um 2x10 cm. Mikil eymsli hefðu verið þarna yfir. „Temporalt“ hægra megin á höfði væri rúmlega 1 cm langur skurður. Á bak við hægra eyra væri nokkuð langur skurður, eða um 6 cm. Sjúklingurinn væri mjög aumur og verkjaði í bakið við þreifingu og ætti mjög erfitt með allar hreyfingar. Á litla fingur hægri handar vantaði nögl og um ferskan áverka væri að ræða. Teknar voru tölvusneiðmyndir af höfði og hálshrygg þar sem fram kom hugsanlegt nefbrot. Einnig var tekin mynd af brjóst- og kviðarholi sem sýndi „lítið samfallsbrot í L1, undir 20% compression“ og „afturkantur“ væri heill. Greining var nefbrot, opið sár á höfði (hluti ótilgreindur), brot á lendarlið og opið sár á fingri með skaða á nögl. Þá segir í vottorðinu að fórnarlamb árásarinnar hafi verið „mjög verkjaður“ í bakinu og verið kaldur og blautur. Líkamshiti hans hefði mælst 38,6°C og hækkað stuttu síðar í 39°C. Hann hefði því verið lagður inn til eftirlits og verkjastillingar. Daginn eftir hafi hann verið útskrifaður og fengið hjólastól að láni. Þá segir í vottorðinu að fórnarlamb árásarinnar hafi komið á göngudeild háls-, nef- og eyrnadeildar 5. janúar 2009 og verið skoðaður af Sigríði Sveinsdóttur sérfræðingi. Tekin var ný sneiðmynd af andlitsbeinum sem sýndi nefbrot. Sérfræðingurinn og Einar Ólafsson sérfræðingur skoðuðu hinn slasaða og töldu þau að um væri að ræða gamalt brot.
Í vottorði Jóns Birgis Baldurssonar tannlæknis, dags. 10. júlí 2009, segir að fórnarlamb árásarinnar hefði komið til tannlæknisins 8. janúar 2009. Hann hefði verið aumur og átt erfitt með að opna munninn og því hefði skoðun og viðgerðir dregist. Kostnaður vegna skoðunar, myndatöku og viðgerða væri samtals 68.700 krónur. Þá segir í vottorðinu að fjórar tennur væru mjög viðkvæmar og líklega þurfi að rótfylla þær á næstu mánuðum og hver rótfylling kostaði um 35.000 krónur, samtals 140.000 krónur. Samtals væri því um að ræða kostnað að fjárhæð 208.700 krónur. Í öðru vottorði tannlæknisins, dags. 11. ágúst 2009, er tannáverkum nánar lýst þannig að sjáanlegir áverkar hafi ekki verið miklir, en þó brotið upp úr hornum þriggja framtanna og brotnar fyllingar/tennur í fjórum tilfellum. Þá segir að afleiðingar áverka sem ekki væru sýnilegir gætu komið í ljós síðar meir og valdið drepi í taugum tanna sem þurfi að laga með rótarfyllingum.

Víkurfréttir birtu á dögunum umfjöllun um dóminn með því að endurbirta frétt sem Vísir.is hafði skrifað um málið. Fréttin sem Víkurfréttir vitnuðu til var röng og var síðar leiðrétt af ritstjórn Vísis. Víkurfréttir sjá því ástæðu til að biðjast afsökunar á að hafa birt frétt sem í voru rangfærslur og biðja hlutaðeigandi velvirðingar á því.

Hér má lesa dóm héraðsdóms í málinu.