Fimm ára gömul hugmynd orðin að veruleika
Útsýnisskífa var sett á stall á Keili á þriðjudaginn að frumkvæði Ferðamálasamtaka Suðurnesja sem áttu veg og vanda að þessu verkefni. Það var áhugafólk úr Vogum sem vakti máls á því við Ferðamálasamtakanna fyrir 5 árum að setja upp útsýnisskífu á fjallið til að auðvelda þeim sem gengju á Keili að þekkja umhverfið. Að sögn Kristjáns Pálssonar formanns samtakanna hefur undirbúningur staðið yfir í 2 ár en þá var Jakob Hálfdanarson fenginn til að hanna skífuna.
FSS fékk góðfúslegt leyfi frá Landmælingum Íslands til að nota stöpulinn sem skífan er á en stöpullinn er mælipunktur. Blikksmiðja Ágústar Guðjónssonar smíðaði mjög veglegan pall umhverfis stöpulinn sem var hannaður af Sigurði Sigurðssyni hjá Verkfræðistofu Suðurnesja. Uppsetning á palli og skífu var svo í höndum blikksmiðunnar og Skúla Ágústssonar frá VSS. Pallurinn var fluttur á þyrlu upp á fjallið en það var Slysavarnarfélagið í Grindavík sem sá um þann þátt ásamt Óskari Sævarssyni. Lokahnykkur verksins var svo á þriðjudaginn þegar Skúli bar níðþunga skífuna á bakinu upp á fjallið þar sem hún var fest niður á stöpulinn.
Að sögn Kristjáns er kostnaður við þessa framkvæmd allt að þrjár milljónir króna en upp í þennan kostnað hafa Ferðamálasamtökin fengið 800 þús. kr. styrk frá Sveitarfélaginu Vogum.
Á útsýnisskífunni eru 87 örnefni allt frá Snæfellsjökli í 123 km fjarlægð og Tröllakirkju í 105 km fjarlægð að Fjallinu eina og Trölladyngju í 3,5 km. fjarlægð, Eldey í 44 km fjarlægð og Litla-Skógfelli í 10 km fjarlægð. Keilir er eitt besta útsýnisfjall landsins og frá fornu fari helsta mið fiskimanna við Faxaflóann. Að staðsetja örnefni rétt er vandaverk og fengu Ferðamálasamtökin fólk af Suðurnesjunum til að aðstoða við að velja inná skífuna örnefni og staðfæra þau. Vilja Ferðamálasamtökin koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem komu að verkinu.
---
VFmynd/elg - Verkinu lokið: Skúli Ágústsson, Kristján Pálsson, Jakob Hálfdanarson, Þorvaldur Árnason, fulltrúi sveitarfélagsins Voga og Reynir Sveinsson, Ferðamálasamtökum Suðurnesja.