Fimleikaiðkun í Grindavík framar björtustu vonum
Fimleikadeild UMFG tók nýlega til starfa og hafa viðtökurnar verið mjög góðar. Alls hafa 70 börn skráð sig til æfinga og er það framar björtustu vonum þjálfarans, Steinþórs Ingibergssonar. Steinþór var áður þjálfari hjá Björkunum og KR í tíu ár en hefur verið starfsmaður Íþróttamiðstövarinnar frá því hann flutti til Grindavíkur fyrir 2 árum.
„Fólk hefur verið að hvetja mig til að byrja með æfingar en ég hafði ekki ímyndað mér að fá svona góð viðbrögð. Alls hafa 70 krakkar skráð sig á æfingar og það er strax kominn biðlisti. Það á eflaust eftir að fækka eitthvað í hópnum því það finna sig ekki alltaf allir í fimleikum frekar en öðrum íþróttum. Ég er með tvo hópa og við æfum alla daga en nú vantar bara stærra íþróttahús því að salurinn sem við notum rúmar ekki fleiri iðkendur. Ég er einnig með hugmyndir um að bjóða upp á æfingar fyrir börn frá allt að 16 mánaða aldri og fá þá mæður og feður með í æfingarnar en þetta verður allt að koma í ljós“, sagði Steinþór hress í bragði við Víkurfréttir þegar við kíktum á eina æfingu hjá Fimleikadeildinni.
Texti og myndir: Þorsteinn G. Kristjánsson