Fíkniefnsalar handteknir á Suðurnesjum
Lögreglan á Suðurnesjum handtók þrjá einstaklinga síðastliðinn föstudag sem allir voru með fíkniefni í fórum sínum. Eru tveir þeirra jafnframt grunaðir um fíkniefnasölu. Í íbúðarhúsnæði eins þeirra fannst talsvert magn af kannabisefnum í neyslueiningum, auk sölubúnaðar og vogar. Einnig lyf sem eru lyfseðilsskyld hér á landi. Þá var hann með umtalsverða fjármuni í fórum sínum sem taldir eru vera ágóði af fíkniefnasölu og voru haldlagðir.
Annar sem var handtekinn vegna gruns um fíkniefnaakstur og reyndist vera sviptur ökuréttindum var með kannabisefni í neyslueiningum. Þau voru falin í hurðarkarmi bifreiðarinnar sem hann ók, undir innréttingunni. Lögregla hefur ítrekað haft afskipti af viðkomandi einkum vegna brota tengdum fíkniefnum. Þá er þetta í annað skiptið sem hann var staðinn að akstri án ökuréttinda.
Sá þriðji var með allnokkuð af kannabisefnum í fórum sínum.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.
Einnig er hægt að koma ábendingum á framfæri á Facebook - síðu lögreglunnar á Suðurnesjum: https://www.facebook.com/lss.abending/