Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fíkniefnin flæða
Mánudagur 22. febrúar 2010 kl. 15:04

Fíkniefnin flæða

-lögreglan óskar eftir nafnlausum ábendingum í síma 800 5005

Lögreglan á Suðurnesjum hefur verið að ná góðum árangri í þeim málum sem hún tekur sér fyrir hendur og íbúarnir eru ánægðir með störf hennar. Miklar breytingar hafa orðið á skipulagi lögreglunnar, sem í dag eru að skila sér, segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á Suðurnesjum. Víkurfréttir tóku hús á lögreglunni og ræddu við þau Sigríði, Skúla Jónsson og Karl Hermannsson um þau mál sem eru efst á baugi í dag.


Hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum starfa samtals 100 starfsmenn og þar af eru 83 í lögregluliðinu. Lögreglan starfar eftir nýju skipulagi sem Sigríður Björk segir að gangi að óskum og að álagi sé dreift nokkuð jafnt á allt starfsliðið. Með skipulagsbreytingum sem fela m.a. í sér þær grundvallarbreytingar að rannsóknir minniháttar mála eru nú unnar af almennri deild hefur tekist að vinna niður töluverðan málahala frá árinu 2008, en þúsundum mála var þá ólokið. Þá séu fjármál lögreglunnar sömuleiðis góð og unnið sé eftir áætlun til að vinna upp hallarekstur lögreglunnar. Á árinu 2009 var rekstrarafgangur upp á um það bil 30 milljónir króna, en hallinn frá árinu 2008 nemur tæplega 200 milljónum króna, þrátt fyrir að hluti þáverandi halla hafi verið bættur með aukafjárveitingu. Líkamsárásarmálum á Suðurnesjum hefur fækkað og þá sé verið að styrkja löggæslu í flugstöðinni, m.a. til að takast á við komur erlendra glæpamanna og vísa þeim strax úr landi aftur. Lögreglan á Suðurnesjum sé vel sett í dag í húsnæðismálum eftir að hafa búið við slæman kost í Grænási um nokkurn tíma að hluta til í færanlegum gámaeiningum. Hins vegar leikur grunur á að fíkniefnaneysla sé að aukast og hyggst lögreglan efna til átaks gegn fíkniefnaneyslu og þjófnuðum á Suðurnesjum. Meira um það síðar í þessari frétt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Sýnileg löggæsla sem íbúar eiga erfitt með að nálgast


Lögreglan á Suðurnesjum er mjög sýnileg og stendur í þeim efnum framar öðrum lögregluliðum í landinu samkvæmt þjónustukönnum sem Ríkislögreglustjóri lét gera fyrir lögregluna í landinu. Um 30% svarenda í könnuninni segjast sjá lögreglumann eða lögreglubíl í sínu byggðarlagi oft eða nær daglega. Á Suðurnesjum var hlutfallið 62%. Er þetta afar góð niðurstaða. Þegar spurt var um aðgengi að lögreglunni var útkoman ekki eins góð fyrir lögregluna á Suðurnesjum. Um 72% svarenda á Suðurnesjum telja lögregluna mjög eða frekar aðgengilega sem er lægsta hlutfallið á landinu. Rúmum fjórðungi svarenda finnst lögreglan ekki vera aðgengileg.


Lögreglan vill bregðast við þessu með eftirfarandi hætti. Ef fólki vantar lögregluaðstoð hvetur lögreglan það að hringja í 112 hvort sem það er í neyð eða ekki. Ef það þarf að koma nauðsynlegum upplýsingum til lögreglu getur fólk hringt í skiptiborð lögreglunnar í síma 420-1700 en eftir lokun skiptiborðs kemur símsvari fólki í samband við varðstofu lögreglunnar. Þá getur fólk sent tölvupóst á netföngin [email protected], [email protected], [email protected], [email protected] og [email protected]. Þarna er verið að tala um netföng sem kynnt eru á heimasíðum sveitarfélaganna.
Þá sýnir könnunin að ríflega helmingur Suðurnesjamanna, 52%, óttast að verða fyrir innbroti og hefur sá ótti aukist um 11% á milli ára. Rúmur fjórðungur Suðurnesjamanna óttast að verða fyrir ofbeldi eða líkamsárásum. Sá ótti hefur á hinn bóginn minnkað um 10% á milli ára. Á Suðurnesjum sögðust um 89% svarenda vera mjög eða frekar öruggir er þeir væru einir á gangi að kvöldi í sínu byggðarlagi sem er um 4% aukning milli ára og telst jákvæð þróun. Á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu er hins vegar hæst hlutfall þeirra sem telja sig frekar eða mjög óörugga að gangi að kvöldi til.


Á Suðurnesjum sögðust um 81% svarenda mjög eða frekar ánægðir með þá þjónustu sem þeir fengu hjá lögreglunni á síðasta ári sem er um 12% aukning milli ára. Greinilegt er að mikið hefur áunnist á milli ára, segir í niðurstöðum könnunarinnar.

Gott samstarf við íbúa svæðisins


Eins og glögglega má lesa úr könnuninni, þá óttast yfir helmingur svarenda á Suðurnesjum að brotist verði inn á heimili sitt. Lögreglan á Suðurnesjum mun á þessu ári leggja áherslu á þennan málaflokk, að uppræta þjófagengi og hafa hendur í hári innbrotsþjófa. Lögreglumönnum af Suðurnesjum varð vel ágengt á nýliðnu ári og komst á slóðir innbrotsþjófa sem herjuðu á Suðurnes. Í samtali Víkurfrétta við talsmenn lögreglunnar á Suðurnesjum kom í ljós að lögreglan leggur mikið upp úr því að eiga gott samstarf við íbúa svæðisins. Lögreglan hvetur íbúana til árvekni og að hafa samband verði þeir varir við eitthvað misjafnt. Það sé áríðandi að fólk tilkynni um grunsamlegar mannaferðir.


En hverjir eru krimmarnir á Suðurnesjum í dag? Þeir eru Íslendingar í meirihluta, segja þeir Skúli og Karl, og eru sambland af heimafólki og aðkomumönnum, en þjófagengin virðast hafa mikil tengsl við aðila á höfðuborgarsvæðinu. Innbrot og þjófnaðir virðast einnig vera vel skipulagðir og í innbrotum er oft rænt eftir fyrirfram ákveðnum „innkaupalista“. Lögreglan hefur t.a.m. eitt dæmi þar sem hlutur hafði verið seldur innan við klukkustundu eftir að honum var stolið.


Lögreglan á Suðurnesjum reynir að nálgast íbúa svæðisins enn frekar með því að opna nokkurs konar hverfislögreglustöðvar. Þannig eru lögreglumenn með aðsetur í Grindavík, Sandgerði, Garði og Vogum. Á þessum stöðum er opið hluta úr degi og bæjarbúum viðkomandi staða velkomið að kíkja í heimsókn og ræða málin.


Fleiri ábendingar um fíkniefnamál


Á Suðurnesjum telja um 38% svarenda að fíkniefnaneysla sé mesta vandamálið sem lögregla þurfi að glíma við. Um 20% segja að umferðarlagabrot og innbrot séu mesta vandamálið.


Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í samtali við Víkurfréttir í dag að fíkniefnabaráttan sé stórt verkefni hjá lögreglunni, svo stórt að nú séu átta lögreglumenn í almennri deild með það verkefni eitt að gefa þeim sem eru viðriðnir fíkniefnamál engin grið. Tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn eru á hverri vakt með það verkefni að hafa fólk í fíkniefnaheiminum undir stöðugu eftirliti. Að auki séu 5 rannsóknarlögreglumenn sem vinna sérstaklega að stærri fíkniefnamálum og vinna gegn skipulagðri glæpastarfsemi í umdæminu.


Sigríður Björk segir að grunur lögreglunnar sé sá að neysla fíkniefna sé að aukast á Suðurnesjum, sem sé slæm þróun. Nú kallar lögreglan eftir samstarfi við íbúa Suðurnesja. Fólk tilkynni til lögreglunnar um vitneskju sína um fíkniefnamál. Lögreglan er með gjaldfrjálst símanúmer, 800-5005, sem er hjá fíkniefnastofu ríkislögreglustjóra. Hafi fólk upplýsingar um aðila sem eru að selja eða neyta fíkniefna þá er fólk hvatt til þess að hafa samband. Sérstök áhersla er lögð á að sá sem hringir inn nýtur 100% trúnaðar. Því miður hafa Suðurnesjamenn ekki verið duglegir að nýta þetta símanúmer en t.a.m. á höfuðborgarsvæðinu leiða ábendingar í 800-5005 til þess að fjölmörg fíkniefnamál koma upp á yfirborðið.


Það er mikilvægt að stöðva fíkniefnaneyslu og sölu og það hvílir mikil samfélagsleg ábyrgð á fólki að láta vita af sínum minnsta grun. Sigríður Björk lögreglustjóri ítrekar að allar ábendingar til lögreglunnnar séu nafnlausar og fari ekki inn í lögregluskýrslur eða fyrir dómstóla.


Góður árangur í haldlagningu fíkniefna á Suðurnesjum


Á síðasta ári náðist mjög góður árangur í haldlagningu fíkniefna á Suðurnesjum. Samtals var lagt hald á 22,7 kíló af fíkniefnum af ýmsum toga en þar var amfetamín fyrirferðarmest eða rétt um 20 kíló. Kókaín var rúm 2 kíló af þeim efnum sem tekin voru á Suðurnesjum. 6000 e-töflur voru teknar, tæplega 1800 steratöflur, 661 kannabisplanta og áfram mætti telja. Fjölmörg önnur efni voru tekin í minna magni en þar vekur kannski mesta athygli að meðal efna sem voru tekin var heróín en hingað til hefur þetta stórhættulega efni ekki verið í umferð á íslenskum fíkniefnamarkaði. Hvers vegna heróínið er nú komið til landsins, skýrist kannski helst af því að nýir aðilar eru komnir inn á fíkniefnamarkaðinn.

Samtals voru 158 einstaklingar teknir fyrir fíkniefnamisferli á síðasta ári, þar af 130 karlar. Íslendingar voru 128, fimm Pólverjar og 23 af öðru þjóðerni. Í flugstöðinni voru 26 einstaklingar teknir sem voru að koma frá Danmörku, 10 frá Hollandi og 16 frá öðrum áfangastöðum. Lögreglan var með 23 gæsluvarðhaldsfanga á síðasta ári í tengslum við fíkniefnamisferli og samtals voru þeir 345 daga á bakvið lás og slá. Framkvæmdar voru 48 húsleitir og 68 sinnum var leitað í bifreiðum.


Mynd: Karl Hermannsson, Sigríður Björk Guðjónsdóttir og Skúli Jónsson.