Fíkniefni og vopn fundust við húsleitir
Í þremur húsleitum sem lögreglan á Suðurnesjum hefur farið í á síðustu dögum, að fenginni heimild, hefur verið haldlagt umtalsvert magn af fíkniefnum og vopnum.
Í húsleit sem gerð var í fyrrinótt í íbúðarhúsnæði fundust kannabisefni. Lögreglumenn höfðu afskipti af nokkrum aðilum sem voru að koma út úr húsnæðinu og reyndust þeir allir hafa neysluskammta af kannabisefnum í fórum sínum, leikur rökstuddur grunur á að sala fíkniefna hafi farið fram þar.
Í annarri húsleit, einnig í íbúðarhúsnæði, fundust fíkniefni bæði kannabis og hvít efni víðs vegar um íbúðina. Einnig haglabyssa, keðjukylfa, exi, hnífur og munir sem ætla má að hafi verið notaðir til að blanda og pakka fíkniefnum. Tveir aðilar sem voru í húsnæðinu reyndust einnig hafa fíkniefni í fórum sínum. Annar þeirra viðurkenndi eign sína á fíkniefnunum sem fundust svo og sölu fíkniefna.
Í þriðju húsleitinni fundust einnig kannabisefni svo og meint kókaín, sterar og óþekkt lyf.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.