Fíkniefni og áhöld á víð og dreif í bifreið
Fjórir handteknir vegna fíkniefnaaksturs um helgina og maki eins þeirra líka eftir húsleit.
Fjórir ökumenn voru handteknir í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina. Þeir óku allir undir áhrifum fíkniefna. Einn þeirra vakti athygli lögreglu þegar hann ók yfir gatnamót á móti rauðu ljósi. Hann viðurkenndi þegar neyslu á amfetamíni. Sýnatökur staðfestu að hann hefði gert gott betur því niðurstöður þeirra sýndu einnig fram á neyslu hans á ópíumefninu metamfetamíni, auk amfetamínsins. Hann viðurkenndi þá að vera nýbúinn að sprauta sig með amfetamíni.
Annar ökumaður viðurkenndi neyslu á kannabis, sem sýnatökur staðfestu.
Hinn þriðji reyndist vera undir áhrifum kannabis og amfetamíns. Í bifreið hans fundust tveir pokar með kannabisefni, annar undir sæti bifreiðarinnar sem hann ók, en hinn í farangursrýminu. Þá fundu lögreglumenn tvær hvítar töflur undir aftursætum. Þá fundust í bílnum glerpípa sem notuð hafði verið við kannabisreykingar og „butterfly“ fjaðurhnífur.
Fjórði ökumaðurinn reyndist hafa neytt kannabis, amfetamíns og ópíumefnis. Farið var í húsleit á heimili viðkomandi, að fengnum dómsúrskurði. Þar voru víða merki um fíkniefnaneyslu og fundu lögreglumenn kannabisefni í risi hússins. Þeir sáu einnig kannabisleifar í salerni og viðurkenndi maki ökumannsins sem var heima, að hafa sturtað fíkniefnum niður þegar lögreglu bar að garði. Makinn var einnig handtekinn.