Festi málað í skjóli nætur
Bæjarbúar í Grindavík ráku margir upp stór augu í morgun þegar þeir fóru á stjá. Í ljós kom að hið fornfræga félagsheimil Festi hafði verið málað í ljósum lit í skjóli nætur. En það átti sínar skýringar.
Grindvíkingar hafa þessa vikuna skreytt hús sín og hverfi í aðdragana Sjóarans síkáta í sínum litum eftir að bænum var skipt upp í fjögur litahverfi. Hefur almenn þátttaka verið mjög góð og vel tekist til, skv. því er fram kemur á vef bæjarins.
Bæjaryfirvöld ákváðu að Festi fengi einnig andlitslyftingu við þetta tækifæri, en húsið hefur látið verulega á sjá. Enda „hús með reynslu“ eins og einhver orðaði það.
Tæknideild bæjarins lét mála húsið seint í gærkvöldi til að koma bæjarbúum á óvart. Reyndar héldu sumir að þetta væri gert í leyfisleysi og kom lögreglan á staðinn upp úr miðnætti til að kanna hvað væri að gerast.
Málningarvinnu við Festi lauk upp úr kl. 4 í nótt og lítur húsið prýðilega út eftir þessa yfirhalningu sem grindvísku málararnir Grétar Schmidt og Rúnar Sigurjónsson sáu um að beiðni Grindavíkurbæjar.