Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Festa lífeyrissjóður með höfuðstöðvar í Reykjanesbæ
Þriðjudagur 20. júní 2006 kl. 18:23

Festa lífeyrissjóður með höfuðstöðvar í Reykjanesbæ

Á stofnfundi sameinaðs sjóðs Lífeyrissjóðs Suðurlands og Lífeyrissjóðs Vesturlands, sem haldinn var 19. júní, var samþykkt að sjóðurinn hlyti nafnið Festa lífeyrissjóður.  Sjóðurinn verður meðal tíu stærstu sjóða landsins. Ársfundir beggja sjóða höfðu áður samþykkt samning um samruna þeirra.

Samrunasamningur sjóðanna kveður á um að eignir og skuldbindingar þeirra renni saman frá og með 1. janúar 2006. Við sameininguna munu réttindi sjóðfélaga Lífeyrissjóðs Vesturlands verða aukin um 4,4% til að jafna stöðu sjóðanna. Heildareignir sameinaðs sjóðs eru áætlaðar um 43 milljarðar og eru greiðandi sjóðafélagar tæplega níu þúsund.

Aðalskrifstofa sjóðsins verður í Reykjanesbæ, en starfstöðvar á Akranesi og Selfossi munu starfa áfram að þjónustu við sjóðfélaga og launagreiðendur. Í stjórn Festu lífeyrissjóðs voru kosnir: Kristján Gunnarsson, formaður, Bergþór Guðmundsson, varaformaður, Ragna Larsen, Bergþór Baldvinsson, Þórarinn Helgason og Sigrún Helga Einarsdóttir.

Gylfi Jónasson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vesturlands og síðar Lífeyrissjóðs Suðurlands, verður framkvæmdastjóri Festu lífeyrissjóðs.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024