Ferskir vindar tilnefndir til Eyrarrósarinnar
Listahátíðin Ferskir vindar er tilnefnd til Eyrarrósarinnar í ár. Ferskir vindar er listahátíð sem haldin er annað hvert ár í Garði. Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Hún beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Að verðlaununum standa Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík.
Tilkynnt verður 2. febrúar næstkomandi hvaða þrjú verkefni hljóta tilnefningu til verðlaunanna. Eitt þeirra hlýtur að lokum Eyrarrósina, 1.650.000 krónur og flugferðir innanlands frá Flugfélagi Íslands og hin tvö verkefnin hljóta peningaverðlaun og flugferðir frá Flugfélagi Íslands.
Eftirfarandi tíu verkefni eiga möguleika á að hljóta Eyrarrósina í ár
Act Alone
Að - þáttaröð N4
Barokksmiðja Hólastoftis
Eldheimar
Ferskir vindar
Northern Wave
Reitir
Rúllandi snjóbolti
Sauðfjársetur Ströndum
Verksmiðjan á Hjalteyri