Ferfættir farþegar með flugi
Íslenski hesturinn aldrei vinsælli í útlöndum og 1.835 hross hafa verið flutt út í ár.
Áttatíu íslensk hross fóru með flugi frá Keflavíkurflugvelli til Belgíu aðfararnótt þriðjudags og hafa því alls 1.835 hross verið flutt út á þessu ári. Síðustu sólarhringar hafa verið annasamir á Keflavíkurflugvelli þegar kemur að útflutningi hrossa og hafa um 200 hestar verið fluttir bæði til Evrópu og Ameríku.
Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins gefur út vegabréf fyrir íslensk hross í umboði Bændasamtaka Íslands. Allir íslenskir hestar sem fluttir eru erlendis eru skráðir í upprunaættbók íslenska hestsins sem heitir WorldFengur.
Eins og fyrr segir hafa 1.835 hross verið flutt út í ár en þau voru 1.509 allt árið í fyrra og aukningin því upp á rúmlega 300 hross og ennþá einn og hálfur mánuður eftir af árinu. Flest fara hrossin til Svíþjóðar, Danmerkur og Þýskalands. Einnig fara mörg hross á áfangastaði eins og Sviss, Austurríki og til Bandaríkjanna.
Ástæða aukningar í sölu á íslenska hestinum er hátt verð sem fæst vegna gengis íslensku krónunnar.
Myndirnar voru teknar þegar síðustu hrossin fóru um borð í flutningagáma seint á mánudagskvöld.