Ferðamönnum stöðugt að fjölga
Samkvæmt talningum Ferðamálastofu fór 112.121 erlendur ferðamaður frá landinu í júlí síðastliðnum um Leifsstöð eða um 14 þúsund fleiri en í júlí á síðasta ári. Aldrei hafa jafnmargir ferðamenn komið til landsins í einum mánuði, eða frá því Ferðamálastofa hóf talningar í Leifsstöð árið 2002.
Aukning milli ára 14,7%
Ferðamenn í júlí í ár voru 14,7% fleiri en í júlí árið 2011. Þegar litið er til fjölda ferðamanna í júlímánuði á ellefu ára tímabili (2002-2012) má sjá 9,6% aukningu milli ára að jafnaði frá árinu 2002. Á næstunni munum við hér á Víkurfréttum taka púlsinn á ferðaþjónustu á Suðurnesjum og ræða við ýmsa aðila úr þeim bransa.
Þjóðverjar og Bandaríkjamenn ríflega fjórðungur ferðamanna Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í júlí frá Þýskalandi (13,8%) og Bandaríkjunum (13,3%). Ferðamenn frá Bretlandi (7,6%), Frakklandi (7,5%), Danmörku (7,3%), Noregi (6,0%) og Svíþjóð (5,6%) fylgdu þar á eftir en samanlagt voru framangreindar sjö þjóðir 61,1% ferðamanna í júlímánuði.
Af einstaka þjóðum fjölgaði Þjóðverjum mest í júlí, þannig komu tæplega þrjú þúsund fleiri Þjóðverjar í ár en fyrra. Þar á eftir fylgdu Bretar, Bandaríkjamenn og Svíar sem voru um 1400 fleiri hver þjóð í júlí. Norðmönnum fjölgaði ennfremur umtalsvert eða um 1100 og Ítölum um 900. Ferðamönnum frá öðrum þjóðum fjölgaði mun minna.
Ferðamönnum fjölgaði frá öllum mörkuðum Þegar litið er til einstakra markaðssvæða má sjá aukningu frá öllum mörkuðum í júlí. Hlutfallslega varð mest aukning frá Bretlandi (20,5%) og frá löndum sem flokkast undir aðra markaði (20,7%). Þar á eftir fylgdu Mið- og Suður-Evrópa (15,4%), Norðurlöndin (12,3%) og N-Ameríka (6,7%).
Ferðamenn frá áramótum Það sem af er ári hafa 357.006 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 52 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 17,2% milli ára. Hlutfallsleg aukning hefur verið frá öllum mörkuðum, mest frá Bretlandi eða 38,6%, löndum sem falla undir aðra markaði (21,4%) og N-Ameríku (20,6%). Aukning frá Mið- og Suður Evrópu hefur verið heldur minni eða 10,5% og sama má segja um Norðurlöndin með 7,8% aukningu.