Ferðamenn til Íslands orðnir 1 milljón á árinu
Um 123 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í september síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 35 þúsund fleiri en í september á síðasta ári. Aukningin nemur 39,4% milli ára og hefur hún ekki mælst svo há milli ára í september frá því Ferðamálastofa hóf talningar. Fjöldinn frá áramótum er nú kominn yfir eina milljón.
Aukning alla mánuði ársins
Aukning hefur verið alla mánuði ársins á milli ára eða 34,5% í janúar, 34,4% í febrúar, 26,8% í mars, 20,9% í apríl, 36,4% í maí, 24,2% í júní, 25,0% í júlí og 23,4% í ágúst.
71% ferðamanna í september af tíu þjóðernum
Um 71% ferðamanna í september síðastliðnum voru af tíu þjóðernum. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða 22,7% af heildarfjölda og næstfjölmennastir voru Þjóðverjar (10,3%) og Bretar (10,3%). Þar á eftir fylgdu síðan Kanadamenn (5,5%), Norðmenn (4,5%), Frakkar (4,1%), Danir (4,0%), Svíar (3,7%), Kínverjar (3,5%) og Spánverjar (2,8%).
Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Bretum, Þjóðverjum, Kanadamönnum og og Kínverjum mest milli ára í september en 12.643 fleiri Bandaríkjamenn komu í september í ár en í fyrra, 3.294 fleiri Bretar, 2.734 fleiri Þjóðverjar, 2.347 fleiri Kanadamenn og 2.342 fleiri Kínverjar. Þessar fimm þjóðir báru uppi 67,2% aukningu ferðamanna í september. Dönum, Norðmönnum og Rússum fækkaði hins vegar í september í ár frá því í fyrra.
Fjöldi ferðamanna í september á tímabilinu 2002-2015
Ferðamönnum í september hefur verulega frá því Ferðamálastofa hóf talningar á Keflavíkurflugvelli árið 2002. Heildarfjöldi ferðamanna í septembermánuði hefur meira en fimmfaldast frá árinu 2002 og munar þá mestu um aukningu N-Ameríkana sem hafa nærri áttfaldast og þeirra sem flokkast undir ,,annað“ sem hafa tífaldast. Ferðamenn frá Mið- og S-Evrópu og Bretlandi hafa nærri þrefaldast og Norðurlandabúar ríflega tvöfaldast.
Um ein milljón ferðamenn frá áramótum
Það sem af er ári hafa 1.010.186 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 222.087 fleiri en á sama tíma í fyrra. Um er að ræða 28,2% aukningu milli ára. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum nema Norðurlöndunum sem hafa staðið í stað. Aukningin hefur verið 50,1% frá N-Ameríku, 28,7% frá Bretlandi, 20,2% frá Mið- og S-Evrópu og 38,5% frá öðrum löndum sem ekki eru talin sérstaklega og flokkast undir ,,annað“.
Ferðir Íslendinga utan
Tæplega 44 þúsund Íslendingar fóru utan í september síðastliðnum eða um sex þúsund fleiri en í september árið 2014. Frá áramótum hafa 336.934 Íslendingar farið utan eða 38.246 fleiri en á sama tímabili árið 2014.