Ferðamenn í röngu sveitarfélagi vilja ólmir komast í gistingu
Íbúar við Kirkjuteig 17 eru langþreyttir á airbnb-misskilningi
Íbúar við Kirkjuteig 17 í Keflavík eru ítrekað vaktir upp um nætur af erlendum ferðamönnum sem ólmir vilja komast í næturgistingu. Ónæðið hófst í febrúar og hefur verið viðvarandi síðan þá. Aðeins hefur þó dregið úr átroðningi með haustinu en í síðustu viku var síðast bankað uppá í þeirri von að komast í uppábúið rúm að sofa.
Sævar Bjarnason er meðal íbúa við Kirkjuteig 17 sem hefur þurft að takast á við ónæðið. Það hófst í febrúar og eru dæmi um það að bankað hafi verið uppá að næturlagi jafnvel þrisvar í sömu vikunni. Sævar sagði í samtali við Víkurfréttir að einnig hafi verið nokkuð um það í fyrstu að hringt væri í síma eiginkonu hans úr erlendum númerum.
Ónæðið hefur verið mikið og mjög reglulegt allt þetta ár.
Skýringuna á tíðum heimsóknum óboðinna ferðamanna er að finna í því að á Kirkjuteig númer 17 í Reykjavík er rekin airbnb-gisting. Ferðamenn gera hins vegar engan greinarmun á því hvort þeir séu staddir í Keflavík eða Reykjavík, enda alþjóðaflugvöllurinn kenndur við Reykjavík.
Þegar ferðamenn koma til landsins sé slegið inn heimilisfangið Kirkjuteigur 17, sem leiði ferðamenn á Kirkjuteig 17 í Keflavík í átta mínútna þægilegri fjarlægð frá flugvellinum.
Sævar segir í samtali við Víkurfréttir að aðallega séu ferðamennirnir sem banka uppá hjá sér frá Kína. Þeir komi bæði á bílaleigubílum en einnig séu dæmi um að þeir komi með leigubílum.
Sumir banka eða hringja dyrabjöllu, aðrir koma bara inn ef dyrnar eru ólæstar. Þá eru dæmi um að ferðafólkið gangi umhverfis húsið til að leita að inngangi eða séu hreinlega að leita að því húsi sem þeir hafi mynd af úr bókun sinni á airbnb. Húsin að Kirkjuteigi 17 í Keflavík og Reykjavík séu mjög ólík.
Sævar segir íbúa að Kirkjuteigi 17 í Keflavík orðna þreytta á þessu áreiti og nenni ekki alltaf að fara til dyra þegar bankað er um nætur. Oft þurfi þó að útskýra fyrir ferðafólkinu að það sé í röngu bæjarfélagi.
Þá finnst Sævari að betur megi gera ferðamönnum grein fyrir því í flugstöðinni að þeir séu alls ekki staddir í Reykjavík við komuna til landsins. Hann hefur þó litla trú á að það gerist og hefur hugsað um að fá sér skilti við lóðarmörk sem segi að þarna sé Kirkjuteigur 17 í Keflavík en ekki Reykjavík og þarna sé ekki rekin airbnb-gisting.
Ferðafólkið er að leita að gistingu sem er í boði í húsi með sama númer við Kirkjuteig í Reykjavík.
Það er þægilegt að vera aðeins átta mínútur frá flugstöð í gistingu við Kirkjuteig, en ferðafólkið veit ekki að það á að fara á Kirkjuteig 17 í Reykjavík, sem sjá má á myndinni hér að neðan. Myndir af Google Maps