Ferðamenn í hraðakstri
Átján ökumenn hafa verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á undanförnum dögum. Sá sem hraðast ók mældist á 153 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund. Næstmesti hraði sem mældur var reyndist vera 147 km þar sem hámarkshraði er einnig 90 km. Í báðum tilvikum var um að ræða erlenda ferðamenn.
Þá hafði lögregla afskipti af bifreið þar sem farþegi hélt á sex mánaða barni í fanginu og var það þar af leiðandi ekki í tilskyldum öryggisbúnaði.
Fáeinir ökumenn voru teknir úr umferð vegna gruns um ölvunar- eða fíkniefnaakstur og skráningarnúmer voru fjarlægð af nokkrum bifreiðum sem voru ótryggðar eða óskoðaðar.