Ferðamálasamtökin og HS vinna að úrbótum við Gunnuhver
„Við hjá Ferðamálasamtökum Suðurnesja höfum undanfarna mánuði verið að vinna með Hitaveitu Suðurnesja að því að nýr vegur verði lagður við Gunnuhver og hafa umhverfisarkitektar og verkfræðingar verið að vinna að því með okkur að þetta verði gert á sem bestan hátt fyrir ferðaþjónustuna,“ segir Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja, inntur eftir viðbrögðum vegna fréttar um álit Skipulagsstofnunar á svæðinu við Gunnuhver.
Kristján segir að undirbúningi sé lokið fyrir þessa vegalagningu og eins aðgengi fyrir alla að hvernum. Aðeins eftir að fá leyfi skipulagsyfirvalda fyrir framkvæmdinni.
„Heildarkostnaður gæti orðið um 100 milljónir króna. FSS hefur litið svo á að þetta verkefni sé hluti af virkjanaframkvæmdum vegna Reykjanesvirkjunar og því eðlilegt að HS greiði þann kostnað. Það er ekki ágreiningur um það milli FSS og HS að vegurinn að Gunnuhver, brúin og útsýnispallurinn við hverinn eyðilagðist vegna virkjanaframkvæmdanna sem leiddu til þess að hverinn breiddi úr sér og krafturinn jókst,“ segir Kristján.
Hann segir það skoðun Ferðamálasamtaka Suðurnesjua að með nýjum vegi og nýju aðgengi að Gunnuhver verði aðgengið fyrir ferðamenn betra en áður og því mikill fengur af því fyrir ferðaþjónustuna.
„Tekið skal fram að ekki hefur staðið á HS að ganga í þetta verkefni, helst hefur staðið á opinberum leyfum. Þessum framkvæmdum á að ljúka næsta haust eða þegar opinber leyfi hafa fengist,“ segir Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja
---
Ljósmynd/elg -Horft fyrir hluta virkunarsvæðiðsins í átt að Gunnuhver.
Tengd frétt: