Ferðamálasamtökin fá milljón úr Pokasjóði
Pokasjóður úthlutaði árlegum styrkjum sínum í síðustu viku og var Ferðamálasamtökum Suðurnesja úthlutað 1 milljón króna til stikunar fornra þjóðleiða á Reykjanesinu. Kristján Pálsson formaður FSS tók við styrknum fyrir hönd samtakanna. Alls úthlutaði sjóðurinn rúmum 100 milljónum í þettta skiptið en frá upphafi hefur sjóðurinn lagt 700 milljónir til hinna ýmissu mála.
Að sögn Kristjáns hefur Pokasjóður þá úthlutað til samtakanna 5,5 milljónum króna í þetta verkefni. Rausnarlegt framlag Pokasjóð til þessa verkefnis gerir það mögulegt að ljúka því eins og til stóð. Nú stendur yfir stikun á Dalaleið sem liggur frá Krísuvík austan við Kleifarvatn framhjá Brennisteinsfjöllum og í Lækjarbotna í Hafnarfirði. Hrauntungustígur frá Djúpavatni til Hafnarfjarðar verður einnig stikaður auk þess sem stikaðar verða þjóðleiðirnar milli byggða á Rosmhvalanesi.
Kristján vill koma þakklæti til forsvarsmanna Pokasjóðs fyrir þátt þeirra í að gera þetta verkefni mögulegt.
Mynd-Allir styrkþegar pokasjóðs ásamt aðstandendum sjóðsins