Ferðalag aftur í tímann
Síðasti pistill þessa árs 2018 og hann eins og fram kom í jólapistlinum að þá munum við fara í smá ferðalag aftur í tímann, þó ekki neitt sérstaklega langt aftur í tímann. Förum aftur til ársins 2003 eða fimmtán ár aftur í tímann og skoðum þessi þrjú bæjarfélög sem eru ennþá útgerðarbæir hérna á Suðurnesjum, Grindavík, Sandgerði og Keflavík.
Svona áður en við höldum áfram þá gætu einhverjir spurt af hverju ég sé að fara að skoða fimmtán ár aftur í tímann, af hverju ekki að skoða og renna yfir árið 2018. Jú, því er til að svara að árið 2018, þegar þessi pistill er skrifaður, ekki búið og ennþá munu einhverjir bátar róa á milli hátíða.
Grindavík
Förum til 2003 og byrjum í Grindavík. Á þessum tíma var Samherji búinn að taka yfir loðnubræðsluna og árið 2003 var gríðarlega miklu magni af uppsjávarfiski landað í Grindavík.
Heildarafli sem landaður var í Grindavík árið 2003 var 148 þúsund tonn sem er gríðarlega mikill afli og má nefna að Grindavík var árið 2003 með aflahæstu löndunarhöfnum á Íslandi.
Alls lönduðu 145 bátar í Grindavík árið 2003 og var þetta í 3629 löndunum. Af þessum 137 þúsund tonna afla þá voru 105 þúsund tonn af loðnu og síld. Svo eins og sést þá munar gríðarlega um þennan uppsjávarfisk sem er núna, árið 2018, horfinn úr löndunartölum í Grindavík.
Aflahæsta skipið sem landaði í Grindavík árið 2003 Vilhelm Þorsteinsson EA með 25 þúsund tonna afla. Þar á eftir kom Bergur VE með 14 þúsund tonn. Þorsteinn VE 13 þúsund tonn, Baldvin Þorsteinsson EA 10 þúsund tonn. Júpiter ÞH 8200 tonn, Svanur RE 5000 tonn.
Þetta er gríðarlega mikill missir fyrir Grindavíkurhöfn að hafa þessar landanir ekki lengur. Ef við horfum aðeins á botnfiskskipin þá var t.d. Gnúpur GK með 6100 tonn, Tómas Þorvaldsson GK um 2400 tonn, Valdimar GK um 2100 tonn, Albatros GK 2000 tonn, Freyr GK 1785 tonn, Hrungnir GK 1500 tonn, Þuríður Halldórsdóttir GK 1000 tonn, Oddgeir ÞH 800 tonn, Þorsteinn Gíslasson GK 580 tonn og Farsæll GK 383 tonn.
Af smábátunum þá var Gísli Einars GK aflahæstur með 336 tonn, það má geta þess að þessi bátur er í dag Addi Afi GK, næstur kom Dúddi Gísla GK með 322 tonn, þessi bátur er í dag Ölli Krókur GK frá Sandgerði, smábáutrinn Maron GK kom númer þrjú með 250 tonn.
Sandgerði
Þá snúum við okkur til Sandgerðis. Árið 2003 var Sandgerði ekki sú höfn sem tók á móti mestum lönduðum afla en aftur á móti var Sandgerði í efsta sæti yfir landanir því að landanir árið 2003 í Sandgerði voru alls um sex þúsund talsins og heildaraflinn sem landaður var í Sandgerði árið 2003 var alls 19 þúsund tonn. Engum uppsjávarfiski var landað í Sandgerði árið 2003. Bátafjöldinn sem landaði afla í Sandgerði þetta árið var líka mjög mikill eða alls 175 bátar.
Aflahæsta skipið í Sandgerði það ár var Sóley Sigurjóns GK með 3700 tonn, Berglín GK kom þar rétt á eftir með 3200 tonn, Örn KE var með 870 tonn, Benni Sæm GK 670 tonn, Siggi Bjarna GK 534 tonn, Kristinn Lárusson GK 425 tonn og má geta þess að báturinn landaði einungis um haustið 2003, Árni KE 395 tonn og Njáll RE 393 tonn.
Aflahæsti smábáturinn var Monika GK með 340 tonn, Staðarberg GK kom þar á eftir með 298 tonn, Mummi GK með 260 tonn.
Nokkrir bátar frá Færeyjum lönduðu Sandgerði þetta ár, t.d. Roc Amadour FO sem kom með 218 tonn í einni löndun, Bakur FO kom með 120 tonn í einni en í heildina þá voru sjö bátar sem komu til Sandgerðis árið 2003 og lönduðu þeir samtals um 600 tonnum af fiski.
Gríðarlegur fjöldi smábáta landaði í Sandgerði og er of langt mál að telja þá upp hérna.
Keflavík, Helguvík og Njarðvík
Höfnin í Keflavík, sem samanstendur af þremur höfnum, er eina höfnin árið 2018 sem hefur þá sérstöðu að þar er landað uppsjávarfiski og er það í gegnum höfnina í Helguvík. Árið 2003 var landaður afli í þessum þremur höfnum alls 26 þúsund tonn, af því þá var uppsjávarfiskur 21 þúsund tonn og því var bolfiskur ekki nema um fimm þúsund tonn sem er mjög lítð. Þessum afla var landað af 89 bátum og í samtals 1330 löndunum, eða um fimm sinnum færri landanir enn í Sandgerði.
Athygli vekur að aflahæsta skipið þetta árið í þessum höfnum var ekki íslensk skip heldur var það loðnuskipið Siku GR sem var skráður á Grænlandi en hafði samt eigendatengls við Ísland. Landaði Siku alls 12 þúsund tonnum af loðnu í Helguvík og var mjög langt ofan við næsta skip sem var Hákon EA með 3500 tonn og Súlan EA var með 1600 tonn.
Af bolfiskbátunum þá var Happasæll KE aflahæstur með um 1100 tonn, Gunnar Hámundarsson GK var með 350 tonn, Njáll RE 288 tonn, Árni KE 258 tonn, Örn KE 256 tonn, Farsæll GK 244 tonn, Valur HF 233 tonn og Þröstur RE 214 tonn. Allir þessir bátar að ofan nema Happasæll KE og Gunnar Hámundarsson GK voru bátar sem voru á veiðum í Faxaflóanum og voru einfaldlega bugtarbátar. Núna árið 2018 eru má segja allir þessir bátar horfnir af svæðinu. Eini af þessum bátum sem að ofan eru nefndir sem kemur í hafnir á Suðurnesjum og þá til Sandgerðis er báturinn sem hét Valur HF árið 2003 en í dag er Hafdís SU og hefur stundað línuveiðar frá Sandgerði undanfarnar vertíðir.
Og talandi um vertíðir þá byrjar árið 2019 á vetrarvertíð og þá verður nú mikið líf í bæði Grindavík og Sandgerði. Vil ég að lokum óska lesendum gleðilegs nýs árs.