Fengu áhorfendastúku að gjöf
Áhorfendastúkan á Vogabæjarvelli í Vogum er orðin eign Sveitarfélagsins Voga. Davíð Harðarson, Ingvar Leifsson og Guðmundur Kristinn Sveinsson sendu bæjarráði Sveitarfélagsins Voga bréf þann 11. nóvember sl. þar sem bréfritarar fara þess á leit við sveitarfélagið að það þiggi mannvirkið að gjöf og vonast jafnframt til að því verði vel haldið við.
Þeir félagar stóðu að byggingu áhorfendastúku við Vogabæjarvöll en framkvæmdin hófst í október 2013 og lauk í ágúst í haust. Áhorfendastúkan er fullbúin og tekur hún 192 manns í stæði.
Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga færir þeim félögum þakkir fyrir höfðinglega gjöf.