Félagsvísindastofnun: 83% lesa Víkurfréttir
Mikill lestur er á miðlum Víkurfrétta en 83% aðspurðra í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á Suðurnesjum sagðist hafa lesið Víkurfréttir eða vf.is.
Könnun Félagsvísindastofnunar fór fram í nóvember og var úrtakið 682 manns, 18 ára og eldri á Reykjanesi. Hringt var í 500 manns en netkönnun send til 182. Alls svöruðu 387 könnuninni og var nettó svarhlutfall 60%. Spurt var um hvort viðkomandi hafi lesið Víkurfréttir eða vf.is síðustu sjö daga.
52% aðspurðra sögðust hafa lesið bæði Víkurfréttir og fréttavefinn vf.is. Átta af hverjum tíu sögðust hafa lesið blaðið og tæp 60% sögðust hafa lesið vf.is.
Miðað við þessar tölur er ljóst að fréttamiðlar Víkurfrétta eru í gríðarlega sterkri stöðu á Suðurnesjum. „Þetta er mjög jákvæðar fréttir fyrir okkur. Það má ekki gleyma því að samfélagið á Suðurnesjum hefur breyst mikið á undanförnum áratug með tilkomu nýs samfélags á Ásbrú og margra íbúa á Suðurnesjum frá öðrum löndum.
„Samkeppni í fjölmiðlun er mjög mikil á Íslandi og inn í hana hafa komið vinsælir samfélagsmiðlar á síðustu árum. Þess vegna er gaman að sjá hvað við höldum sterkri stöðu í samfélaginu á Suðurnesjum. Það hafa engir aðrir miðlar viðlíka aðsókn eða lestur á Suðurnesjum. Þessar flottu tölur hvetja okkur á Víkurfréttum til að halda áfram að gera enn betur í okkar útgáfu,“ segir Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta.