Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Félagsráðgjafi tekur til starfa hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja
Mánudagur 13. febrúar 2023 kl. 07:17

Félagsráðgjafi tekur til starfa hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Rannveig Sigríður Ragnarsdóttir, félagsráðgjafi, hefur hafið störf hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og bætist því við þá öflugu liðsheild sem þar starfar. Rannveig býr að haldgóðri reynslu úr starfsendurhæfingu, sem félagsráðgjafi hjá Samvinnu starfsendurhæfingu og hjá VIRK á Suðurnesjum en sú reynsla nýtist vel í þessu nýja starfi. Rannveig hefur einnig reynslu af kennslu þar sem hún kenndi heimilisfræði í þrjú ár hjá Sandgerðisskóla.

Ráðning félagsráðgjafa hjá FS var ákveðin til reynslu á meðan starfið er í þróun. Þar með er skólinn að mæta kröfum um aukna þjónustu við nemendur sína sem glíma við ýmsan tilfinningalegan og félagslegan vanda og þurfa aðstoð með sín mál. Ástæður þess að nemendur gætu þurft að leita til félagsráðgjafa geta verið margvíslegar, svo sem að byggja sig upp andlega og breyta neikvæðum hugsunum í jákvæðar, efla sjálfstraust og sjálfsöryggi, læra að setja sjálfum sér og öðrum mörk og öðlast vellíðan. Einnig aðstoðar skólafélagsráðgjafi nemendur við að greina styrkleika sína og virkja þá, auka seiglu ásamt því að draga úr áhrifum ýmissa hindrana sem standa í vegi fyrir því að nemendurnir nái þeim markmiðum sem þeir stefna að. Mikilvægt er að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir hverju sinni og grípa snemma inn í. Ef í ljós kemur að nemendur þurfa á öðrum úrræðum að halda utan veggja skólans er gott samstarf við aðrar stofnanir á svæðinu, svo sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Félagsþjónustu sveitarfélaganna, og því greið leið að senda tilvísanir áfram í viðeigandi úrræði.

Þjónusta skólafélagsráðgjafans er nemendum FS að kostnaðarlausu og það eina sem nemendur þurfa að gera til að brjóta ísinn er að senda póst á Rannveigu ([email protected]) og óska eftir viðtali.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024