Fréttir

Félagsmenn VS munu ákveða hvort þeir vilji viðhalda stöðugleikanum
Föstudagur 2. mars 2018 kl. 07:00

Félagsmenn VS munu ákveða hvort þeir vilji viðhalda stöðugleikanum

- segir Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja

„Félagið stendur sterkt, rekstur þess hefur verið stöðugur um árabil og skilað jákvæðri afkomu. Við höfum verið í góðu samstarfi á landsvísu og teljum mikilvægt að það verði þannig áfram. Félagsmenn munu nú eiga þess kost að ákveða hvort þeir vilji viðhalda þessum stöðugleika. Við sem höfum stýrt félaginu erum reiðubúin til að leggja okkar að mörkum til að svo megi verða,“ segir Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja. Guðbrandur hefur verið formaður frá árinu 1998 og framkvæmdastjóri félagsins á sama tíma. 
 
Nú hefur borist mótframboð vegna kjörs í stjórn og trúnaðarráð Verslunarmannafélags Suðurnesja fyrir næsta starfsár. Tómas Elí Guðmundsson, starfsmaður söluskrifstofu Icelandair, gefur kost á sér til formanns VS gegn Guðbrandi Einarssyni, sitjandi formanni, sem gefur kost á sér áfram á lista sem stjórn og trúnaðarráð VS leggur fram. Kjörnefnd mun úrskurða um lögmæti framboða í framhaldinu, ákveða kjördag og fyrirkomulag kosninga. Um allsherjaratkvæðagreiðslu er að ræða þ.e. kosið er á milli lista sem hvor um sig inniheldur nöfn 24 einstaklinga sem gefa kost á sér til formanns, stjórnar, trúnaðarráðs og sem félagslegir endurskoðendur. 
 
Guðbrandur segir margt sem fólk lítur á sem sjálfsagðan hlut í dag hafa náðst í gegn fyrir tilstuðlan samstöðu innan verkalýðshreyfingarinnar. „Við náðum inn fræðslusjóðunum  á árinu 2000 og það hefur nýst félagsmönnum okkar mjög vel og við erum stöðugt að auka réttindin þar. Þá má einnig nefna Virk starfsendurhæfingu sem varð til í kjarasamningunum 2008, þegar að starfsendurhæfingarsjóðirnir náðust í gegn. Framlög í fullorðinsfræðslu hafa komið í gegnum kjarasamninga og það hefur ráðið tilvist símenntunarmiðstöðvanna sem nú eru í öllum landshlutum. Það nýjasta er auðvitað stofnstyrkirnir frá ríki og sveitarfélögunum sem náðust í gegn í kjarasamningnum 2015. Þar var um að ræða styrki til byggingar 2.300 íbúða fyrir tekjulága einstaklinga og það er ánægjulegt að segja frá því að það verkefni hófst fyrir alvöru þegar að fyrsta skóflustungan var tekin vegna byggingar á 155 íbúðum fyrir fáeinum dögum,“ segir Guðbrandur.
 
- Nú hefur þú fengið mótframboð. Hver eru viðbrögð þín við því?
 
„Fyrir okkur er þetta bara veruleiki sem verður bara að vinna með. Það er auðvitað réttur félagsmanna að gefa kost á sér til ábyrgðarstarfa innan félagsins og ánægjulegt ef slíkt er að gerast. Þannig hefur það hins vegar ekki verið í gegnum tíðina. En þetta gefur okkur sem stýrt höfum félaginu um árabil tækifæri til að draga fram þann árangur sem náðst hefur, ekki bara á sviði kjaramála heldur einnig í rekstri félagsins“. 

 
- Ertu búinn að vera of lengi á formannsstóli?
 
„Það má vera að margir líti þannig á. Ég hef hins vegar þá skoðun að reynsla sé af hinu góða. Mér hefur verið treyst fyrir ýmsum verkum á sameiginlegu borði stéttarfélaganna s.s. formennsku í Landssambandi verslunarmanna og sæti í miðstjórn ASÍ þrátt fyrir að stærð Verslunarmannafélags Suðurnesja [VS] gefi ekki tilefni til þess. Rödd VS hefur verið við borðið. Það má einnig benda á að Magnús L. Sveinsson, fyrrverandi formaður VR, sat sem framkvæmdastjóri í 20 ár og síðan sem formaður í 24 ár til viðbótar. Allan þann tíma ríkti mikill stöðugleiki í rekstri VR. Það hefur einnig ríkt mikill stöðugleiki í rekstri VS. Félagið hefur verið mjög heppið með starfsfólk og starfsmannavelta verið mjög lítil. Varaformaður VS, Bryndís Kjartansdóttir, sem einnig er í stjórnarkjöri núna hefur verið í starfi fyrir félagið allan minn tíma hjá félaginu. Það er mikill kostur að hafa slíka samstarfsmenn. Félagið stendur sterkt þrátt fyrir að ýmislegt hafi dunið á s.s. brotthvarf hersins og efnahagshrunið sem fór illa með marga félagsmenn“.
   
- Fer saman að vera formaður stéttarfélags og starfa í pólitík? 
 
„Já ég lít svo á. Ég hef verið áhugamaður um samfélagsmál alveg frá fyrstu tíð og tekið þátt á þeim vettvangi lengi vel. Það fer saman með hagsmunum félagsmanna VS að reyna að hafa áhrif á mótun samfélagsins. Það að hækka hvatagreiðslur, hafa ókeypis ritföng í skólum og vinna að lækkun skatta hefur jákvæð áhrif á marga okkar félagsmenn og við erum stöðugt að reyna að hafa áhrif á stjórnvöld í heilbrigðis- og velferðarmálum á vettvangi ASÍ. Þannig vinnum við að því að bæta aðstæður okkar félagsmanna“.
 
- Burtséð frá stjórnarkjöri í Verslunarmannafélagi Suðurnesja. Hvað er framundan hjá félaginu? 
 
„Launahækkanir kjararáðs til handa æðstu embættismönnum hefur skapað mikla óánægju í samfélaginu. Það er auðvitað ótækt að verið sé að skammta þessum hópum launahækkanir langt umfram það sem launafólk á almennum vinnumarkaði hefur fengið. Við því þarf að bregðast með einhverjum hætti. Núgildandi kjarasamningur rennur út um næstu áramót en þessa dagana er verið að ræða hvort honum verður sagt upp. 
Félagsmönnum hefur fjölgað mikið eða um ca. eitt þúsund félagsmenn frá því að ég kom að félaginu. Við erum þó enn þrjú sem störfum hér á skrifstofu. Við höfum verið að bæta okkur á ýmsum sviðum, tekið í gagnið rafrænan orlofsvef og vinnuveitendur geta nú skilað gjöldum rafrænt til okkar. Næsta verkefni sem við erum að vinna að eru svokallaðar „Mínar síður“ sem gera félagsmanninum kleift að sjá stöðu sína í sjóðum félagsins og skila inn umsóknum rafrænt,“ segir Guðbrandur Einarsson, formaður VS í samtali við Víkurfréttir.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024