Félagsmálaráðherra á ferð í Reykjanesbæ
Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, er á ferðinni á Suðurnesjum í dag. Heimsækir hann m.a. bæjarstjóra Reykjanesbæjar, skrifstofur stéttarfélaganna og Svæðisvinnumiðlunar, að sögn til að kynna sér stöðu mála á svæðinu nú þegar Varnarliðið er á förum.
Svo virðist sem nokkuð rólegt sé yfir málunum þessa dagana. Þá eru þau einnig í óvissu hvað varðar svokallaðar varnarviðræður en litlar upplýsingar hefur verið að hafa um gang þeirra, t.d. hvað varðar framtíð mannvirkja á varnarsvæðinu og tækjakost. Á meðan heldur Varnarliðið áfram að taka saman föggur sínar og sá tímapunktur nálgast að uppsagnarfrestur starfsfólks VL renni út.
Á starfsmanni Ráðgjafastofu starfsmanna VL var að heyra í dag að frekar rólegt væri yfir málunum þessi dægrin en það kynni að breytast þegar fólk færi að koma úr sumarfríum. Talsvert framboð væri á störfum og alltaf eitthvað að bætast við í þeim efnum.
Mynd: Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, tekur á móti félagsmálaráðherra í dag. Meðal annarra í för var Hjálmar Árnason, þingmaður. VF-mynd: elg