Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Félagsheimilið Festi verður að Hótel Festi
Miðvikudagur 2. febrúar 2005 kl. 15:56

Félagsheimilið Festi verður að Hótel Festi

Kynningarfundur um stofnun Hótels Festi í Grindavík var haldinn í Saltfisksetrinu fimmtudaginn 27. janúar síðastliðinn.  Heiðursgestur var Jón Kristjánsson Heilbrigðisráðherra. Um 60 manns sóttu fundinn og þótti hann heppnast afar vel.  Nýr framkvæmdastjóri Hótel Festi, Sigurbjörn Dagbjartsson var fyrsti frummælandi og fór hann yfir viðskiptaáætlun og þau áform sem fyrirhuguð eru með nýju hóteli. En frá þessu er greint á vefsíðu Grindavíkurbæjar.

Sjöfn Ágústsdóttir sálfræðingur fór fyrir Heilsuhópnum ehf. og gerði grein fyrir nýjum hugmyndum um heilsuþorp í Grindavík með rekstri í Hótel Festi. Bæjarstjóri Grindavíkur, Ólafur Örn Ólafsson, lét í veðri vaka að Grindvíkurbær myndi gera allt sem í hans valdi stæði til að reynast verkefninu öflugur bakhjarl. Heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, fór fögrum orðum um verkefnið og kvað ráðuneytið reiðubúið að leggja verkefninu lið eftir fremsta megni. Í lok fundar fór Ríkharður Ibsen forsvarsmaður Lykil Ráðgjafar Teymi sem hefur haft með höndum ráðgjöf fyrir Hótel Festi yfir framtíðarsýn „Blue Diamond Entertainment Group“ og hugsanlegar tengingar Hótel Festi og Grindvíkur við það hugtak.  Að fundi loknum bauð Heilsuleikskólinn í Grindavík fundarmönnum að neyta heilsusamlegra rétta.

Undirskrift samstarfsyfirlýsinga

Á fundinum skrifuðu Jón Kristjánsson Heilbrigðisráðherra, Ólafur Örn Ólafsson bæjarstóri Grindavíkur, Sjöfn Ágústsdóttir fyrir hönd Heilsuhópsins, Brynjar Pétursson, Nuddstofu Brynjars og Sigurbjörn Dagbjartsson framkvæmdastjóri Hótel Festi undir viljayfirlýsing um samstarf við uppbyggingu heilsuþorpsins og Hótel Festi.

Hótel Festi

Fyrir liggur að Félagsheimilið Festi verður að Hótel Festi og byggir fyrsti áfangi á 40 herbergjum en forsendur fyrir samkomuhúsi í Grindavík verða enn til staðar. Ljóst má vera að um er að ræða nýja stærð í ferðaþjónustu á svæðinu og vilja frumkvöðlar verkefnisins byggja á góðu samstarf við aðra aðila í ferðaþjónustu á Reykjanesi.  Samlegðar og margfeldisáhrif af verkefninu ættu að verða víðtæk og þess má geta að tengingar við Heilsuhópinn ehf. gera ráð fyrir um 20-25 manna hópum erlendra gesta vikulega á hótelið.

Hönnun, umsjón og eftirlit verður í höndum Teiknistofu Halldórs Guðmundssonar, Tækniþjónustu Sigurðar Ásgrímssonar og Rafmiðstöðvarinnar. Hönnunar og ímyndarsérfræðingur Mixa hönnunar og auglýsinga, Halla Guðrún Mixa, kemur jafnframt að mótun verkefnisins fyrir hönd Heilsuhópsins. Lykil Ráðgjöf Teymi hefur séð um ráðgjöf. Vinna við hönnun er hafin og er reiknað með að aðaluppdráttum verði lokið í lok mars. Áætlað er að skóflustunga og framkvæmdir við verkið hefjist 1. mars 2005. Áætluð verklok eru 31. mars 2006 m.v. 40 herbergi og formleg opnun Hótels Festi er áætluð í maí 2006. Hlutafjársöfnun hefur gengið framar vonum og er fjármögnun vel á veg komin.

http://www.grindavik.is/

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024