Fékk hjólajakka og hanska
Sigurði Guðmundssyni 10 ára gömlum voru færðar góðar gjafir í dag frá Flytjanda, Eimskip og Kiwanis á Suðurnesjum, en hann fékk hjólajakka og hjólahanska að gjöf. Í fyrra lenti Sigurður í alvarlegu slysi þegar keyrt var á hann þegar hann var á hjólinu. Sigurður var með hjálm á höfðinu og er fullyrt að það hafi bjargað lífi hans.
Jón Norðfjörð umboðsmaður Eimskips og Flytjanda á Suðurnesjum afhenti Sigurði gjöfina í dag og við það tilefni sagði Jón að þeir aðilar sem stæðu að hjálmaátakinu vildu vekja athygli á því að hjálmanotkun borgar sig. „Við viljum hvetja alla til að nota hjálma og fá börnin til að vakta hvert annað um að nota hjálma.“
Kiwanismenn, Flytjandi og Eimskip gefa öllum sex ára börnum á landinu hjálma um þessar mundir.
Myndin: Jón Norðfjörð afhendir Sigurði gjöfina í dag, en með þeim á myndinni eru sex ára krakkar sem fengu hjálma frá Kiwanis, Flytjanda og Eimskip. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.