Fékk bút af dansgólfinu til að dansa við frúna!
Glaðheimar, hið fornfræga samkomuhús Vogabúa, er horfið af yfirborði jarðar. Húsið var rifið fyrir nokkru þar sem ásigkomulag þess var orðið það bágborið að ekki borgaði sig að ráðast í endurbætur á því. Í skiplagi er lóðinni skipt í tvær einbýlishúsalóðir og er búið að úthluta annarri þeirra.
Vogabúar verða svo sem ekki á hrakhólum með samkomuhúsnæði þrátt fyrir brotthvarf Glaðheima því Tjarnarsalurinn í Stóru Vogaskóla hefur þjónað því hluverki ágætlega. Einnig er salur í íþróttahúsinu sem nýtist t.d. undir minni fundi.
Samkomuhús á borð við Glaðheima, þar sem fólk hefur skemmt sér á mannfögnuðum kynslóð fram af kynslóð, hefur vitaskuld mikið tilfinningagildi fyrir rótgróna bæjarbúa. Mörgum þeirra fannst því sárt að sjá á eftir Glaðheimum.
Einn þeirra kom og fékk bút af dansgólfinu áður en öllu var mokað í burtu. Bútinn ætlaði hann að setja niður heima hjá sér þar sem hann gæti dansað við frúna eins og hann hafði gert í áraraðir á dansleikjum í Glaðheimum.
---
VFmynd/elg - Glaðheimar eru horfnir. Í staðinn rís einbýlishús á lóðinni.