Fékk blóðugar skammir á fyrsta fundinum
Böðvar Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks sat sinn 400. bæjarstjórnarfund í Reykjanesbæ.
„Ég held að eftirminnilegasti fundurinn sé einn af þeim fyrstu sem ég sat, þá sem varamaður á árinu 1994,“ segir Böðvar Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ sen hann sat sinn 400. bæjarstjórnarfund sl. þriðjudag. Böðvar sat sinn fyrsta bæjarstjórnarfund í byrjun árs 1994, þá 26 ára. „Böðvar hefur verið mikilvægur þessu sveitarfélagi í gegnum tíðina og það eru ekki mörg dæmi um að menn byrji svona ungir eins og hann gerði,“ sagði Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þegar hann afhenti honum bókagjöf frá bænum.
Böðvar rifjar upp þennan fund sem hann minnist á við VF og segir svo: „Ég hafði verið kallaður inn á fundinn með skömmum fyrirvara og til umfjöllunar var málefni sem brann heitt á mönnum á þessum tíma og tengdist sameiningu sveitarfélaganna sem þá var nýlega gengin í gegn. Ég kom upp í pontu og sagðist því miður ekki hafa haft tækifæri til þess að kynna mér málið nægilega vel enda bara varamaður og boðaður til fundar með skömmum fyrirvara. Vinur minn og félagi, Ragnar Halldórsson, sem þá sat sem fulltrúi Alþýðuflokksins í bæjarstjórn lét mig aldeilis heyra það. Ég fékk blóðugar skammir frá honum og hann sagði þetta enga afsökun, ég sæti fund Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og ætti einfaldlega að vera tilbúinn fyrir umræðuna. Eftir þetta hét ég sjálfum mér því að ég skyldi aldrei aftur koma til fundar öðruvísi en fullkomlega undirbúinn. Þetta kjörtímabil og að sjálfsögðu ávallt eftir það lúslas ég því alltaf öll gögn fyrir bæjarstjórnarfundi, hvort sem ég hafði verið boðaður til fundarins eða ekki og var alltaf tilbúinn að taka þátt í umræðum hvort sem ég var kallaður inn með 2 daga fyrirvara eða 2 klukkustunda.“
Böðvar er með verulega yfirburði í fjölda bæjarstjórnarfunda. Enginn bæjarfulltrúi hefur setið fleiri bæjarstjórnarfundi en næsti bæjarfulltrúi á eftir honum er Björk Guðjónsdóttir með 328 fundi. All nokkrir hafa setið yfir 200 fundi. Bæjarstjórn heldur rúmlega 20 fundi á ári. Á þessum rúmlega tuttugu árum hefur Böðvar verið formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar.
„Í fljótu bragði er mér efst í huga eftir þennan tíma uppbygging, endurskipulagning og einsetning grunnskólanna sem var gríðarlega stórt verkefni á sínum tíma, sameining tónlistarskólanna, tenging þeirra við grunnskólann og bygging Hljómahallar sem gerði Tónlistarskóla Reykjanesbæjar að besta tónlistarskóla landsins, uppbygging íþróttalífs og aðstöðu, m.a. fyrsta yfirbyggða knattspyrnuhús landsins, efling menningarlífs sem er afar blómlegt hér í Reykjanesbæ og uppbygging aðstöðu fyrir aldraða, bæði þjónustumiðstöðvar og hjúkrunarrýma á Nesvöllum og Hlévangi svo að einhver verkefni séu nefnd.“ sagði Böðvar þegar Víkurfréttir spurðu hann hvað stæði upp úr eftir 400 fundi.
Böðvar á fundi fyrir all nokkrum árum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Honum við hlið þarna er einmitt Björk Guðjónsdóttir sem hefur setið næst flesta fundi eða 328.