Faxi og Nesprýði hlutu Súluverðlaun Reykjanesbæjar
Málfundafélagið Faxi og Verktakafyrirtækið Nesprýði í Reykjanesbæ hlutu Súluna, - menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2005. Verðlaunahafar fengu afhentan grip, Súluna, eftir Elísabetu Ásberg sem bjó lengi í Keflavík og er dóttir Sambíóhjónanna Guðnýjar Ásberg og Árna Samúelssonar.
Afhending verðlaunanna fór fram í Listasafni Reykjanesbæjar, Duus húsum í dag. Auk þess voru afhentir styrkir til sextán aðila fyrir 5,3 millj. króna úr menningarsjóði Reykjanesbæjar.
Málfundafélagið Faxi var stofnað 10.október 1939. Félagar eru 12 og eru fundir haldnir á heimilum félagsmanna til skiptis að jafnaði hálfs mánaðarlega frá okt. til maí. Tilgangur félagsins er að efla félagsþroska félaganna og gefa þeim kost á æfingu í rökréttri hugsun og munnlegri framsetningu hennar, Ennfremur að víkka sjóndeildarhring þeirra gagnvart hinum ýmsu viðhorfum á sem flestum sviðum. Einnig gefur félagið út blaðið Faxa en fyrsta tölublað FAXA kom út rúmu ári eftir stofnun Málfundafélagsins, 21.desember 1940, fyrir réttum 65 árum. Faxi hefur ætíð leitast við að uppfylla væntingar frumherjanna en þær voru þannig fram settar í ávarpi til lesenda í fyrsta tölublaði: -Málfundafélagið Faxi Ætlast til, að þetta blað verði í framtíðinni vettvangur fyrir umræður um málefni Suðurnesjamanna. Þar á þeim að gefast kostur á að ræða:
1.FRAMFARAMÁL: Útgerð,hafnarmál,iðnaðarmál,ræktunarmál, heilbrigðismál, rafmagnsmál o. fl.
2. MENNINGARMÁL: Almenn félagsmál, skemmtanir, skólamál, lestrarfélagsmál,
kvikmyndasýningar, bindindismál o. fl. Það er eindregin ósk útgefendanna, að sem flestir leggi þarna orð í belg, og ræði málin af sanngirni og hispursleysi. Útgáfa Faxa í 65 ár er ómetanleg heilmild um sögu og menningarmál í bæjarfélaginu og er hópurinn því vel að þessum verðlaunum kominn.
Formaður stjórnar Málfundafélagsins Faxa er nú Kristján A. Jónsson. Ritstjórar FAXA undanfarið hafa verið, Helgi Hólm og Eðvarð T. Jónsson.
Nesprýði
Nesprýði hefur frá stofnun unnið með bæjarfélaginu að umhverfismálum. Vissulega má segja að umhverfismál í víðasta skilningi þess orðs séu menningarmál og fyrirtækið hefur tekið þátt í að fegra umhverfi alls kyns útilistaverka af mikilli smekkvísi. Nesprýði hefur þó ekki aðeins einskorðað sig við umhverfi og útlit heldur komið inn með kröftugan stuðning við listir og menningu í formi beinharðra fjárframlaga. Listasafn Reykjansbæjar hefur t.d. notið stuðnings þeirra og loforð um áframhaldandi stuðning liggur fyrir. Hér áður fyrr voru Keflavíkurverktakar öflugir stuðningsaðilar menningar en tímarnir hafa breyst og er það gleðiefni að önnur fyrirtæki í verktakabransanum skuli ætla að feta sömu slóð þ.e. styðja við jákvæð verkefni sem tengjast ekki beinlínis þeirra fagi en auðga og efla líf bæjarbúa.
Sextán aðilar hluti styrki fyrir samtals 5,3 millj. kr.
1. Hermann Árnason fékk kr. 50.000 til kynningar á list sinni, m.a. til heimsíðugerðar.
2. Ólafur Ormsson fékk kr. 150.000 til útgáfu á skáldævisögu, söguslóð er Keflavík áranna 1948-1963.
3. Ísmedía fékk kr. 150.000 vegna fyrirhugaðrar leikferðar með Ávaxtakörfuna eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur á barnaleikritahátíð í Kína.
4. Ísafold - Kammersveit fékk kr. 150.000 vegna tónleikaferðar um landið 2005, léku m.a. í Reykjanesbæ. Tilnefnd til Ísl. tónlistarverðlaunanna sem bjartasta vonin 2005.
5. Glysgirni/Sigurður B. Blöndal fékk kr. 300.000 vegna gerðar kvikmyndarinnar Bítlabærinn Keflavík.
6. Sóknarnefnd Keflavíkurkirkju fékk kr. 200.000 útgáfu margmiðlunardisks um sögu Keflavíkurkirkju í tilefni 90 ára vígsluafmælisins.
7. Oddgeir Karlsson fékk kr. 300.000 vegna útgáfu ljósmyndabókarinnar “Reykjanes” sem leit dagsins ljós á Ljósanótt.
8. Hildur Harðardóttir fékk kr. 300.000 vegna útgáfu á bókinni “Sagnir úr Reykjanesbæ” sem kemur út í nóvember.
9. Hljómsveitin Æla/Hafþór Skúlason fékk kr. 100.000 vegna útgáfu á geisladiski sem kemur út í nóvember. Einnig er hljómsveitarmeðlimum þökkuð sú vinna sem þeir hafa lagt í að skipuleggja tónleikahald ungra hljómsveita hér á svæðinu.
10. Norðuróp/Sigurður Sævarsson fékk kr. 150.000 vegna flutnings á Vetrarferðinni eftir Franz Shubert í flutningi Jóahanns Smára Sævarssonar og Jari Heikapelto í Reykjansbæ. Tónleikarnir verða öðru hvoru megin við áramót.
11. Harpa Jóhannsdóttir nemandi í Tónlsitarskóla Reykjanesbæjar fékk kr. 100.000 vegna þátttöku í 6 vikna tónlistarnámskeiði erlendis.
12. Dagný Gísladóttir fékk kr. 150.000 vegna útgáfu minningarbókar um brunann í Skildi árið 1935. Hugsuð sem fyrsta bindi í ritröð sem ætluð er til að efla menningarsögulega vitund íbúa Suðurnesja. Útgáfa ætluð 2006.
13. Rannveig L. Garðarsdóttir og Jóhanna Þórarinsdóttir fengu kr. 150.000 til að vinna kynningarefni um Innri-Njarðvík og Innri-Njarðvíkurkirkju fyrir skóla, íbúa og ferðamenn.
14. Bylgja Dís Gunnarsdóttir fékk kr. 100.000 vegna námskeiðs í sópransöng hjá erlendum kennurum haldið í Keflavíkurkirkju í ágúst 2005 og masternáms í sópransöng í Royal Scottish Academy of music and drama. 2 ára nám. Henni eru einnig þökkuð frumkvöðulsstarf með barnakór Keflavíkurkirkju.
15. Kirkjumenning á Suðurnesjum fékk kr. 150.000 til greiðslu á verkefnum tengdum kirkjunum í Reykjanesbæ.
15. Suðsuðvestur, sýningarrými fékk kr. 300.000 fyrir rekstur sýningarrýmis fyrir myndlistarmenn sem vinna að listsköpun á rannsakandi hátt. Einnig verður gerður við félagið 1 árs samningur á svipuðum nótum og gerður hefur verið við aðra menningarhópa í Reykjanesbæ.
16. Rythma og Blúsfélag Reykjanesbæjar fékk kr. 300.000 til stuðnings blúshátíð sem haldin var á Ljósanótt og öflugu tónleikahaldi á árinu. Einnig verður gerður við félagið 1 árs samningur á svipuðum nótum og gerður hefur verið við aðra menningarhópa í Reykjanesbæ.
Samkvæmt samningum fá eftirfarandi félög þessa úthlutun á árinu 2005:
Leikfélag Keflavíkur kr. 450.000
Félag myndlistarmanna í Reykjanesbæ kr. 300.000
Tónlistarfélag Reykjansbæjar kr. 300.000
Kvennakór Suðurnesja kr. 300.000
Karlakór Keflavíkur kr. 300.000
Eftirfarandi félög fá aukabónus þetta árið fyrir góða þátttöku á Ljósanótt:
Félag myndlistarmanna í Reykjanesbæ kr. 100.000
Tónlistarfélag Reykjansbæjar kr. 100.000
Kvennakór Suðurnesja kr. 100.000
Karlakór Keflavíkur kr. 100.000
Suðsuðvestur nýlistagallerí kr. 100.000
Rythma og Blúsfélag Reykjanesbæjar kr. 100.000
Á efri myndinni má sjá Helga Hólm, ritstjóra Faxa og hjónin úr Nesprýði, þau Erlu Zakaríasdóttur og Jón Olsen með verðlaunagripi sína. Á neðri myndinni má sjá styrkþega Menningarsjóðs Reykjanesbæjar eftir afhendinguna í dag.
Ljósm. Páll Ketilsson og Valgerður Björk Pálsdóttir.