Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fáum mjög mikið af fólki sem kemur bara og grætur
Föstudagur 7. janúar 2011 kl. 09:44

Fáum mjög mikið af fólki sem kemur bara og grætur

-segir Hjördís Kristinsdóttir hjá Keflavíkurkirkju

„Þetta er aðeins fækkun á fjölskyldum frá því í fyrra. Það hafa fleiri verið að sækja um en hafa þurft á því að halda þannig að við þurftum að vísa fólki frá sem var með of háar tekjur,“ sagði Hjördís Kristinsdóttir, umsjónarmaður kirkju og kirkjugarða Keflavíkur um úthlutanir úr Velferðasjóði Suðurnesja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það eru á bilinu 300-400 fjölskyldur sem eru illa staddar hér á Suðurnesjum og er þetta að mestu leyti fólk sem lifir undir þeim viðmiðum sem umboðsmaður skuldara gefur fjölskyldum til að lifa af. Sem dæmi má nefna að hjón með tvö börn eiga samkvæmt umboðsmanni skuldara að lifa af með 156.800kr. en þetta er fólk sem er með minna en þá upphæð,“ sagði Hjördís. Líkt og jólin 2009 höfðu sóknirnar á Suðurnesjum ásamt Hjálpræðishernum samstarf þegar kom að jólaúthlutun Hjálparstarfs kirkjunnar og Velferðarsjóðs Suðurnesja.

Alls fengu yfir 300 fjölskyldur og/eða einstaklingar aðstoð. Aðstoðin var í formi matarkassa en að auki fengu barnafjölskyldur kort til þess að nota í matvöruverslunum í hlutfalli við stærð fjölskyldanna. Þessu til viðbótar lét Velferðarsjóður Suðurnesja allar fjölskyldur og einstaklinga hafa kort í Samkaupsverslanirnar.

Nokkur fækkun var á milli ára og er það í samræmi við fækkun umsókna á landsvísu. Sú nýbreytni var að þessu sinni að úthlutunarreglur sem verið hafa í gildi frá 1. febrúar 2010 voru látnar gilda um jólaaðstoðina og þurfti fólk því að sýna upplýsingar um tekjur og útgjöld fjölskyldunnar.

„Við vorum áður að sjá meira af öryrkjum og þess háttar en þetta árið er aðallega atvinnulaust fólk sem sækir um hjálp, fólk sem er á framfærslu félagsþjónustunnar og fólk sem er með lágar tekjur.“ sagði Hjördís. „Ég held einnig að þetta sé mjög mikið sama fólkið sem fór í fjölskylduhjálpina og leitaði til okkar svo þetta gefur góða mynd af ástandinu hér á svæðinu.“

Mikill fjöldi sjálfboðaliða lagði sitt af mörkum við úthlutunina, bæði við það að pakka í matarkassana sem voru sóttir í aðstöðu jólahjálparinnar 2010 og við útdeilingu um kvöldið. Fyrirtæki aðstoðuðu einnig við þetta með láni á húsnæði, flutningi pakkanna o.fl. að ógleymdum einstaklingum sem gáfu jólagjafir og félagasamtökum eins og Kiwanis sem gáfu fjölskyldum jólatré.

Velferðarsjóðurinn lét tæplega 3 milljónir út í formi gjafakorta í þessari úthlutun og vildi Hjördís koma á framfæri þökkum frá sjóðnum til þeirra fjölmörgu sem lagt hafa honum lið á árinu.

Aðspurð um hvort fólk hafi leitað til kirkjunnar vegna fjárhagsvandræða sagði Hjördís vo vera. „Mikið af fólki hefur farið til presta í leit að hughreistingu en sumt fólk hefur hreinlega gefist upp. „Við fáum mjög mikið af fólki sem kemur bara og grætur. Fólkið er ekki að sjá fram á að getað lifað af og leitar því ráða.“ sagði Hjördís.

Mynd - Samkaup hf., sem m.a. eiga og reka Nettó, styrktu Velferðarsjóð Suðurnesja með myndarlegu framlagi í desember.

[email protected]