Fátt um varalausnir varðandi heita vatnið
Verði eldgos á Reykjanesi er fátt um varalausnir varðandi heita vatnið. Júlíus Jón Jónsson, framkvæmdastjóri HS Veitna segir engar áætlanir til enn um hvernig leysa eigi vandann ef heitavatnsdreifing frá orkuverinu í Svartsengi stöðvast. Það er ein sviðsmynda sem gæti komið upp ef eldgos yrði við Grindavík. Júlíus segir þetta í Fréttablaðinu í morgun en HS Veitur sendu frá sér tilkynningu í gær.
Aðalinntökusvæði HS Veitna er í gjá í hrauninu Lágum sem er um 3 kílómetra norður af Svartsengi sem er um þrjá kílómetra norður af Svartsengi. Ferskvatninu er dælt til orkuversins í Svartsengi og þar er kalda vatnið hitað upp með jarðhitagufu.
Í tilkynningu frá HS Veitum segir að verið sé að skoða hvaða afleiðingar þetta gæti haft á þjónustu fyrirtækisins. „Í upphafi er rétt að geta þess að mjög ólíklegt er að tjón verði á dreifikerfum HS Veitna sem leiði til takmarkana á þjónustu. HS Veitur treysta hinsvegar á afhendingu á heitu og köldu vatni frá HS Orku og síðan raforku frá Landsneti og þar eru stóru spurningarnar. Möguleikarnir eru vissulega óteljandi, í allra versta falli verður gos sem veldur (verulegu) tjóni á orkuveri HS Orku. Gerðist það, sem reyndar verður að teljast mjög ólíklegt, verða óhjákvæmilega verulegir erfiðleikar á orkuafhendingu á svæðinu. Miklu líklegra er, ef yfirleitt verður gos, að til einhverra skemmda gæti komið á vatnslögnum og rafstrengjum en viðgerðir á slíkum skemmdum ættu ekki að vera stórmál.
Ef fyrst er litið til Grindavíkur þá annast HS Veitur raforkudreifinguna, sölu og dreifingu á heitu vatni og svo afhendingu á köldu vatni til Vatnsveitu Grindavíkur. Verði rafmagnslaust þá eiga HS Veitur tvær diselvélar og síðan er verið að vinna að því að varðskipið Þór kæmi til Grindavíkur reynist það nauðsynlegt. Þá hefur verið haft samband við bæði Rarik og Veitur í Reykjavík og ljóst að þar er unnt að fá lánaðar dieselvélar reynist það nauðsynlegt. Álagið í Grindavík er nú um 6,5 MW en spurning hvað það verður komii til eldgos og (einhver) rýming í bænum. Við miðum því á þessu stigi við að þurfa að útvega allt að 4 MW og þar af gætu 1,5 MW komið frá varðskipinu en annað yrði að koma frá dieselvélum og ekki unnt að útiloka einhverja skömmtun. Varðandi heita vatnið þá eru möguleikar á varalausnum mjög takmarkaðir Komist raforkukerfið fljótt í lag eru einhverjir möguleikar á rafhitun og síðan er verið að skoða möguleika á kötlum, raf- eða olíu, til að hita upp vatn en þær lausnir eru bæði tímafrekar og kostnaðarsamar. Varðandi kalda vatnið þá er ekki líklegt að til langvarandi truflunar komi en gerist eitthvað slíkt verður t.d. skoðað að nýta tímabundið gömul og aflögð vatnsból.
Varðandi norðanverðan skagann svo sem Reykjanesbæ höfum við litlar áhyggjur af rafmagninu, öflugar tengingar við Hafnarfjörð og Reykjanes eiga að tryggja að það gangi truflanalaust eða lítið. Ferskvatnið ætti líka að vera í lagi, vatnsbólin eru nánast mitt á milli Svartsengis og Fitja og ólíklegt annað en að þau sleppi,“ segir í tilkynningunni.
„ Enn sem komið er eru engar áætlanir uppi um hvernig við leysum vandann ef framleiðsla í Svartsengi myndi stöðvast,“ segir Júlíus í samtali við Fréttablaðið en bætir því við að rétt sé að halda ró sinni þar sem litlar líkur séu á því að allt fari á versta veg.