Fátt annað að gera en að bretta um ermar
Njarðvíkingurinn Helga Sigrún Harðardóttir varð í gær óvænt þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi eftir að Bjarni Harðarson sagði af sér þingmennsku. Í þjóðfélaginu heyrast þær raddir að margir mættu taka Bjarna sér til fyrirmyndar og axla sína ábyrgð en það er önnur saga.
„Dagurinn hefur verið erilsamur í meira lagi og aðstæður hér allar hinar undarlegustu. Það eru hins vegar mýmörg tækifæri fólgin í nýju hlutverki og ógrynni verkefna sem þarf að vinna og fátt annað að gera en að bretta upp ermar. Ég bý að því að hafa unnið með þingflokki framsóknarmanna undanfarin þrjú ár og er því vel að mér í málefnum og vinnubrögðum hér í þinginu,“ segir Helga Sigrún í bloggi sínu í gær.
Helga kemur einnig inn á þá umræðu að þingið sé ekki þátttakandi í lausn þeirra verkefna sem nú blasa við til lausnar efnhagsvanda þjóðarinnar.
„Ég get verið sammála því. Ég ætla hins vegar ekki að sitja og bíða eftir því að ríkisstjórnin færi mér verkefni. Það þarf að leita svara við ýmsum spurningum sem hafa vaknað að undanförnu, semja lög um rannsóknarnefndir sem stendur til að skipa en enginn veit hvernig eiga að vinna. Það þarf líka að undirbúa breytingartillögur við stjórnarskrána og semja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur svo eitthvað sé nefnt,“ segir þingmaðurinn Helga Sigrún Harðardóttir.
Blogg Helgu má sjá hér.