Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fátækt í Reykjanesbæ: viðtal við einstæða þriggja barna móður
Fimmtudagur 9. janúar 2003 kl. 17:04

Fátækt í Reykjanesbæ: viðtal við einstæða þriggja barna móður

Málefni einstæðra mæðra hafa oft verið í sviðsljósinu þar sem oft er rætt um harða lífsbaráttu þeirra. Víkurfréttir náðu tali af einstæðri móður í Reykjanesbæ sem hefur þrjú börn á framfæri. Hún vill ekki láta nafn síns getið en er kölluð Linda í þessu viðtali. Linda býr í leiguhúsnæði og hefur sótt um íbúð í félagslega kerfinu hjá Reykjanesbæ. Hún segist ekki búast við að fá íbúð í því kerfi á næstunni: “Mér er sagt að það losni 20 íbúðir á ári, en ég veit ekki hvort einstæðar mæður séu í einhverjum forgangshóp. Ég missi íbúðina mína eftir þrjár vikur og ef ég fæ ekki félagslega íbúð þá verð ég að freista þess að vera áfram á leigumarkaðnum," segir Linda. Að sögn Lindu þarf hún að huga að hverri krónu til að ná endum saman: “Ég er svo heppin að reykja hvorki né drekka og það sparast miklir peningar á því. Ég þekki nokkrar einstæðar mæður sem reykja og eru á djamminu og það fara miklir peningar í það. Þetta er spurning um að leyfa sér aðeins minna til að geta lifað á því sem maður hefur á milli handanna. Þær einstæðu mæður sem vinna fyrir lágmarkslaunum hafa það verst og þurfa virkilega á aðstoða að halda."

Linda segir að hún þurfi að neyta sér um ýmsa sjálfsagða hluti: “Þetta er bara spurning um það hvaða viðmið eru uppi í þjóðfélaginu. Ég á til dæmis ekki bíl, en ég vil eiga bíl því þannig er maður að vissu leiti frjáls. Það eru að sjálfsögðu kostir og ókostir að eiga bíl, en ég tel kostina vera mun fleiri. Ég skilgreini mig ekki sem fátæka því ég á alltaf fyrir mat og launin mín duga út mánuðinn. En eins og ég sagði áðan þekki ég einstæðar mæður sem eiga ekki fyrir mat í lok mánaðar. En ég vil taka það fram að þannig er það alls ekki með allar einstæðar mæður," segir Linda og bætir því við að þetta sé spurning um lífsgæði: “Þetta er ekkert spurning um það hvort maður sé sveltandi því þannig er það ekki. Ég vil hins vegar geta farið með börnin mín til tannlæknis þegar þau þurfa og alla þessa hluti sem teljast til lífsgæða í dag," segir Linda.

Hún segir að staða sín sé betri en hjá mörgum öðrum einstæðum mæðrum: “Ég er með menntun þannig að ég er ekki á lágmarkslaunum og hef það í rauninni ágætt, en ég verð að fara sparlega með aurana," segir Linda að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024