Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fastir túristar á smábílum
Mánudagur 4. febrúar 2008 kl. 17:13

Fastir túristar á smábílum

Nokkuð hefur verið um útköll hjá björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík vegna erlendra ferðamanna sem lent hafa  í ógöngum á smábílum í ófærð á Krýsuvíkurleiðinni. Þrátt fyrir vetrarfærð  virðist fólkið fá ábendingar um það á bílaleigum að umrædd leið sé góð útsýnisleið.
Síðastliðinn fimmtudag kom upp tilvik þar sem erlent par á íslenskum bílaleigubíl hafði yfirgefið bílinn og ætlað að ganga til byggða. Björgunasveitin náði í fólkið og kom því til byggða og náði síðan í bílinn sem sat pikkfastur.

Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar, segir að þetta hafa verið viðvarandi vandamál til langs tíma, ekki sé meira um slík útköll nú en áður. Hann segir að rætt hafi verið við bílaleigurnar um þetta á sínum tíma en ekki sé vanþörf á að gera það aftur þar sem einhver starfsmannaskipti hljóti að hafa verið á bílaleigunum síðan.

Í tilvikum sem þessum þarf að manna bíl og ræsa út í það minnsta fjóra menn, þannig að talsverður kostnaður hlýst af hverju útkalli þegar allt er tekið saman.


Mynd: Eins og sést á þessu korti Vegagerðarinnar frá því í dag er ófært frá Grindavík til Krýsuvíkur og þungfært um Suðurstrandarveg. Hins vegar er greiðfært á öllum helstu leiðum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024