Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fasteignamatið hækkar næst mest í Suðurnesjabæ
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 5. júní 2019 kl. 10:16

Fasteignamatið hækkar næst mest í Suðurnesjabæ

Fasteignamat íbúða hækkar næst mest á öllu landinu í Suðurnesjabæ eða um 17,7% en mest var hækkunin á Akranesi 21,6%. Fasteignamatið hækkar um 9,1% á landsbyggðinni en um 5% á höfuðborgarsvæðinu.

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 6,1% frá yfirstandandi ári og verður 9.047 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2020 sem Þjóðskrá Íslands kynnti í vikunni.  Þetta er mun minni hækkun en varð milli áranna 2017 og 2018 þegar heildarmat fasteigna í landinu hækkaði um 12,8%. Fasteignamatið byggir á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna.  Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2019. Það tekur gildi 31. desember 2019 og gildir fyrir árið 2020. Frestur til að gera athugasemdir við nýtt fasteignamat er til 30. desember 2019.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hækkun fasteignamats

Sérbýli

Fjölbýli

Atvinnuhúsnæði

Höfuðborgarsvæðið

5,2%

4,8%

5,9%

Landsbyggð

9,1%

9,1%

9,3%

Landið allt

6,6%

5,3%

6,9%

Fasteignamat sumarhúsa fyrir árið 2020 hækkar um 0,7% á milli ára.  Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á aðferðafræði við útreikning á fasteignamati sumarhúsa og má þar helst nefna fjölgun matssvæða yfir allt landið auk þess sem útreikningi lóðaverðs hefur verið breytt þannig að sumarhúsalóðir undir meðalstærð lækka en lóðir yfir meðalstærð hækka.  Lóðaverð sumarhúsa lækkar því að jafnaði um 23% á milli ára á meðan húsmatið sjálft hækkar um 7,5%.

Þjóðskrá Íslands hefur um árabil haldið úti verðsjá þar sem hægt er að skoða gangverð fasteigna.  Verðsjáin sem var uppfærð árið 2017 hefur að geyma upplýsingar um bæði kaup- og leiguverð fyrir íbúðarhúsnæði og um kaupverð sumarhúsa.  Verðsjáin er aðgengileg á heimasíðu Þjóðskrár Íslands eða beint á verdsja.skra.is.

Í verðsjánni er hægt að greina landið eftir landshlutum eða þeim matssvæðum sem fasteignamat Þjóðskrár Íslands byggir á.  Þannig má með einföldum hætti sjá hvernig verðþróun hefur verið á ákveðnu svæði út frá fyrirliggjandi kaup- eða leigusamningum.