Fasteignamarkaðurinn í blóma
Það er óhætt að segja að fasteignamarkaðurinn á Suðurnesjum hafi tekið kipp á undanförnum misserum, eftir ládeyðu árin eftir bankahrun. Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá var 339 kaupsamningum vegna húsnæðis þinglýst á Suðurnesjum á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og var heildarveltan 9.173 milljónir. Til samanburðar var fjöldi þinglýstra kaupsamninga á sama tíma í fyrra 224 og heildarveltan 4.499 milljónir. Í apríl síðastliðnum var 95 kaupsamningum á Suðurnesjum þinglýst en í apríl í fyrra voru þeir mun færri, eða 54. Að sögn Þrastar Ástþórssonar, fasteignasala hjá M2 Fasteignasölu & Leigumiðlun í Reykjanesbæ, hefur sala íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum tekið mikinn kipp á þessu ári. Nokkuð hafi þó lifnað yfir markaðnum á síðasta ári. „Svo hefur þetta verið stigvaxandi og eftirspurnin er alltaf að aukast. Hún er orðin meiri en framboð og það vantar orðið eignir á sölu,“ segir hann.
Nokkuð mörg dæmi eru um að eignir hafi verið seldar á hærra verði en upphaflega var sett á þær og segir Þröstur slík tilvik ekki hafa komið upp síðan fyrir bankahrun. „Það má því segja að það sé mikill kippur í gangi.“ Að sögn Þrastar er töluvert um að fólk af höfuðborgarsvæðinu flytji til Suðurnesja og segir hann það koma markaðnum vel af stað. „Fólki af höfuðborgarsvæðinu finnst íbúðaverðið hér gott að það lyftir verðunum upp. Þau hafa verið að hækka og eru eiginlega að hækka núna í þessum töluðu orðum. Þetta er það sem gerist þegar markaðurinn klárast, það er lítið framboð og þegar nýjar eignir koma inn þá hækka verðin.“
Það er engin ein tegund af íbúðarhúsnæði sem selst betur en önnur þessa dagana, heldur virðist allt seljast. „Það má segja að það sé öll flóran, bæði ódýrasta húsnæðið og það dýrasta. Það má segja að það sé fjör í öllum verðflokkum,“ segir Þröstur.
Að sögn Þrastar eru margar skýringar á því hversu líflegur fasteignamarkaðurinn á Suðurnesjum er núna. Að einhverju leiti sé eftirspurn eftir húsnæði uppsöfnuð. „Það er líka bætt staða hjá fólki almennt. Síðan í fyrra hefur fólk sem er að kaupa sína fyrstu eign getað fengið allt að 90 prósenta lán hjá bönkunum, en þó með ákveðnu hámarksverði.“ Þröstur nefnir einnig mikla uppbyggingu hér á svæðinu og að næg atvinna sé í boði. Það er því sitt lítið af hverju sem útskýrir líflegan fasteignamarkað á Suðurnesjum þessa dagana.