Fasteignaleit nýtur mikilla vinsælda á vef Víkurfrétta
Fólk í fasteignahugleiðingum á Suðurnesjum þarf nú ekki að leita langt yfir skammt því Víkurfréttir hafa tekið í notkun nýja fasteignasíðu á vf.is. Hún sameinar á eina síðu fasteignir frá fasteignasölunum Ásbergi, Stuðlabergi og Eignamiðlun Suðurnesja. Þessar sömu fasteignasölur auglýsa einnig eignir sínar í Víkurfréttum í hverri viku.
Er um handhæga nýjung að ræða þar sem nú má finna flestar fasteignir, sem eru til sölu á Suðurnesjum, á einum stað. Það sem gerir þetta kleift er það að viðkomandi fasteignasölur nota sama vefumsjónarkerfi og Víkurfréttir, Conman frá fyrirtækinu Dacoda.
Fasteignaleitin á vef Víkurfrétta, www.vf.is/fasteignir, hefur notið talsverðra vinsælda frá því hún var tekin í notkun og skipta flettingar þúsundum á þeirri viku sem liðin er frá því leitarvélin var tekin í notkun.