Fréttir

Fasteignakaup í Grindavík verða kláruð fljótlega
Katrín Jakobsdóttir skoðaði aðstæður þar sem nýja heita vatnslögnin er í Svartsengi.
Fimmtudagur 15. febrúar 2024 kl. 08:38

Fasteignakaup í Grindavík verða kláruð fljótlega

„Það er mikil samstaða í þinginu að vinna hratt í þessu máli og ljúka því sem fyrst þannig að fólk geti farið að gera áætlanir, ljúka óvissunni í þessu máli. Ef við horfum upp á það að þetta geti orðið viðvarandi ástand þurfum við að grípa inn í. Það eru allir sammála um það í þinginu en líklega verða aldrei allir sáttir en ég sé þó að mörgum hugnast þessi lausn ágætlega,“ segir forsætisráðherra um það að Ríkissjóður kaupi íbúðarhúsnæði  í eigu einstaklinga í Grindavík og taki yfir íbúðalán þeirra. Umfang aðgerðarinnar er metið allt að 61 milljarði króna.

Félag í eigu ríkisins mun annast framkvæmdina

Til þess að framkvæma aðgerðina mun ríkið stofna og fjármagna sérstakt félag, Fasteignafélagið Þórkötlu. Það mun hafa það hlutverk að kaupa fasteignirnar og bera ábyrgð á rekstri þeirra fyrir hönd ríkissjóðs. Félagið mun bera allan umsýslukostnað vegna kaupa á fasteignunum. Gert er ráð fyrir að félagið eigi tilkall til mögulegra bóta úr Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ) og beri mögulegan kostnað við niðurrif komi til þess.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Frumvarpið gerir ráð fyrir að fasteignirnar verði keyptar á verði sem nemur 95% af brunabótamati að frádregnum veðskuldum. Kaupverðið byggir á samsvörun við bótagreiðslur úr Náttúruhamfaratryggingu Íslands en ljóst er að mikil óvissa er um framtíð íbúðarhúsnæðisins, t.d. möguleg förgun.

Fjármögnun félagsins verður með tvenns konar hætti. Í fyrsta lagi, með láni lánveitenda í Grindavík og ríkissjóðs. Þannig mæta lánveitendur þeirri óvissu sem er uppi um virði eigna á svæðinu. Í öðru lagi, með eiginfjárframlagi frá ríkissjóði. Enn er gert ráð fyrir að hluti af framlagi ríkissjóðs sé fjármagnaður með eignum NTÍ.

Upplýsingasíða fyrir Grindavík

Þegar frumvarpið hefur verið afgreitt frá Alþingi verður leiðbeiningum um hvað Grindvíkingar þurfa að undirbúa fyrir umsóknina sem og umsókn um uppkaup komið fyrir á upplýsingasíðu Grindvíkinga á Ísland.is. Sömuleiðis verður þar að finna algengar spurningar varðandi undirbúning og útfærslur aðgerðarinnar. Er þetta gert til að auðvelda afgreiðslu á stuðningi stjórnvalda til Grindvíkinga. Umsókn um uppkaup verður gefinn rúmur tími og verður opið fyrir þær til 1. júlí 2024. Þeim sem geta ekki nýtt sér stafræna umsókn á Ísland.is eða eru undanþegnir lögheimilisskráningu á þessum tíma er bent á þjónustumiðstöð Grindvíkinga í Tollhúsinu.