Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fasteignaeigendur í Grindavík hafi einstaklingsbundið val
Fimmtudagur 1. febrúar 2024 kl. 12:26

Fasteignaeigendur í Grindavík hafi einstaklingsbundið val

- bæjarfulltrúar skora á almannavarnir og lögreglu

„Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar ítrekar afstöðu sína og vill biðla til ríkisstjórnarinnar að fasteignaeigendur Grindavíkurbæjar hafi hver og einn einstaklingsbundið val um framtíð sína.“ Þetta kemur fram í bókun bæjarstjórnarinnar frá því í gær.

„Teljum við ákjósanlegast að útfærslur verði nokkrar, þar á meðal; tafarlaus uppkaup, fá eigið fé greitt og að fresta ákvörðun sinni eða óbreytt eignarhald og fara heim um leið og aðstæður leyfa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar bindur miklar vonir við að ríkisstjórnin birti útfærslur í upphafi febrúarmánaðar til að eyða óvissu íbúa sem fyrst og veita íbúum bæjarfélagsins frelsi til ákvörðunartöku um eigin framtíð,“ segir jafnframt í bókun bæjarstjórnar Grindavíkur.

Í annarri bókun bæjarstjórnar Grindavíkur frá fundinum segir:

„Skipulag verðmætabjörgunar er verkefni almannavarna og óskar bæjarstjórn Grindavíkur eftir samtali vegna þeirra vinnu.“

Þá bókuðu bæjarfulltrúar frá D-lista, M-lista og U-lista eftirfarandi:
„Undirritaðir skora á Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, lögreglustjórann á Suðurnesjum og Ríkislögreglustjóra að endurskoða afstöðu sína varðandi gildandi skipulag og opna sem fyrst fyrir umferð um allar leiðir til og frá Grindavík, fyrir íbúa og atvinnulíf. Þá verður aftur að taka upp opnanir sem gilda frá kl. 10:00 til 17:00 eða 19:00.“ Undir þetta rita þau Hjálmar Hallgrímsson, fulltrúi D-lista, Gunnar Már Gunnarsson, fulltrúi M-lista og Helga Dís Jakobsdóttir, fulltrúi U-lista.