Fasteign hf. vinnur að nýju ráðhúsi á Fitjum
Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í dag að fela Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. að vinna að og koma með tillögur að nýjum bæjarskrifstofum Reykjanesbæjar sem staðsettar verða á Fitjum. Áætlanir gera ráð fyrir að mögulegt verði að Hitaveita Suðurnesja verði einnig með höfuðstöðvar sína í sömu byggingu.
Tillagan var samþykkt með atkvæðum meirihlutans. Minnihlutinn greiddi hins vegar atkvæði á móti og lagði fram eftirfarandi bókun:
Húsnæðismál-nýjar bæjarskrifstofur
Við lýsum okkur andvíga þeirri aðferðarfræði sem sjálfstæðismenn hyggjast beita við byggingu nýrrar bæjarskrifstofu. Enn á ný ætlar meirihluti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar að fara í hundruð milljón króna framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins án þess að bjóða verkefnið út og leita hagstæðustu verða. Þannig á ekki að fara með opinbert fé og samræmist ekki góðri stjórnsýslu.
Gróft reiknað eða áætlað má skipta kostnaði við svona mannvirki upp í þrennt á líftíma þess.
1. Kostnað við byggingu. (reisa mannvirkið)
2. Rekstur mannvirkisins.
3. Fjármögnun mannvirkisins.
Eins og málum er háttað í dag við stjórnun Reykjanesbæjar er einungis hægt að færa rök fyrir því að bygging mannvirkisins sé boðin út.
Fulltrúar A-listans styðja byggingu nýrra bæjarskrifstofa að Fitjum þar sem áætlað er að ný bygging verði áföst nýjum höfuðstöðvum Hitaveitu Suðurnesja og telja málið brýnt.
Hins vegar ber sveitarfélaginu að leita bestu verða með lögformlegu og opnu útboði eða forvali þar sem fleiri fyrirtækjum en Fasteign er boðin möguleiki á að keppa um verkefnið á jafnræðisgrundvelli.
Eysteinn Jónsson og Guðbrandur Einarsson.
Meirihluti sjálfstæðismanna lagði fram eftirfarandi bókun:
Enn á ný er um alvarlegan misskilning eða mistúlkun að ræða í bókun minnihlutans þar sem félagi í eigu Reykjanesbæjar, Fasteign hf. er falið að undirbúa verkefnið.
Böðvar Jónsson, Björk Guðjónsdóttir og Steinþór Jónsson.