Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fasteign endurskiplögð - Leiga lækkar um helming
Eignarhaldsfélagið Fasteign á fjölmargar eignir í Reykjanesbæ.
Föstudagur 25. janúar 2013 kl. 06:53

Fasteign endurskiplögð - Leiga lækkar um helming

Hluthafar og leigutakar Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf (EFF) samþykktu á hluthafafundi í gær endanlega endurskoðaða leigu- og lánasamninga sveitarfélaganna við félagið. Fasteign er meðal annars í eigu Reykjanesbæjar, Sandgerðis og Voga.

Samningarnir hafa verið í undirbúningi síðustu misserin. Líklega er um að ræða stærstu frjálsu samninga um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækis sem gerðir hafa verið hér á landi, en eignir félagsins námu í lok árs 2010 yfir 52 milljörðum króna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þann 28. september 2010 settu sveitarfélögin sem voru eigendur í Eignarhaldsfélaginu Fasteign (EFF) þá sameiginlegu ósk fram við EFF og lánastofnanir að leigu- og lánasamningar sveitarfélaganna við EFF yrðu endurskoðaðir. Þetta var í kjölfar þeirra greiðsluerfiðleika sem Álftanes stóð frammi fyrir og fleiri sveitarfélög gætu átt í ef ekki væri brugðist við. Á þetta var fallist af hálfu EFF og lánastofnana og samningaviðræður hófust undir forystu Lárusar Blöndal hrl.

Félagið minnkar í umfangi

Samningurinn felur í sér að hluti eigna félagsins hefur verið seldur og því minnkar félagið umtalsvert að umfangi og tilgangur þess og eignarhald breytist. Eignarhaldsfélagið Fasteign, sem verður áfram eign níu sveitarfélaga ásamt Arion banka, verður hreint leigufélag en mun ekki sinna annarri þjónustu við sína leigutaka eins og hingað til er varðar þróun eigna og nýframkvæmdir. Þá munu leigutakar sjá um allan rekstur eignanna sjálfra ásamt viðhaldi þeirra.

Eigendur og þá jafnframt leigutakar félagsins eru nú 9 sveitarfélög ásamt Arion banka. Sveitarfélögin eru Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Grímsnes-og Grafningshreppur, Norðurþing, Reykjanesbær, Sandgerði, Vestmannaeyjabær, Vogar og Ölfus. Sem hluti af endurskipulagningunni þá var endursamið um kjör og skilmála lánasamninga og jafnframt samið um lækkun á hluta erlendra lána félagsins vegna mögulegs ólögmætis og samhliða hefur öllum erlendum skuldum félagsins verið breytt í íslenskar krónur.

„Niðurstaðan er sú að leigan lækkar mjög verulega, lækkar um og yfir fimmtíu prósent, a.m.k. í þrjú og hálft ár - eitt og hálft ár aftur í tímann og tvö ár fram í tímann. Síðan má gera ráð fyrir til svona lengri tíma að þá verði lækkunin yfir þriðjungur,“ sagði Lárus Blöndal lögmaður í samtali við Rúv.