Fasteign byggir Vesturberg – breytingartillaga minnihlutans felld í bæjarráði
Minnihlutinn í bæjaráði Reykjanesbæjar vill að bæjarfélagið standi sjálft að fjármögnun að nýrri byggingu leikskólans Vesturbergs og hann verði eign bæjarins í stað þess að Fasteign byggi skólann og bæjarfélagið verði leigutaki. Breytingartillaga minnihlutans þess efnis var felld í bæjarráði í morgun.
Formaður bæjarráðs lagði fram tillögu á fundinum þess efnis að Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf yrði heimilað að hefja framkvæmdir við Vesturberg á grundvelli kynningar og kostnaðaráætlunar sem áður hafði verið lögð fram.
Guðbrandur Einarsson, A-lista, lagði fram áðurnefnda breytingartillögu sem meirihluti D-lista felldi. Tillaga formanns var síðan samþykkt með atkvæðum meirihlutans en minnihlutinn greiddi atvkæði á móti henni.
Meirihlutinn lagði fram bókun þar sem segir að þegar Reykjanesbær hafi tekið ákvörðun um stofnun Fasteignar hf. árið 2002 hafi allar áætlanir sýnt að rekstur og bygging fasteigna yrði fjárhagslega hagkvæmari í því rekstrarformi en ef Reykjanesbær gerði það í eigin nafni. Engar upplýsingar hafi komið fram sem sýnt hafi fram á annað.
Í bókun sem minnihlutinn lagði fram segir:
„Við greiðum atkvæði gegn því að Fasteign hf. verði falið að sjá um byggingu nýs húsnæðis leikskólans Vesturberg án útboðs og skuldbindingar Reykjanesbæjar sem leiguliða Fasteignar hf. verði auknar. Við teljum rétt að nú verði snúið af þeirri braut og byggt verði í reikning Reykjanesbæjar.“
Niðurstaðan er því sú að Fasteign byggir leikskólann „þrátt fyrir allt minnihlutakvabb“ eins og segir í frægum dægurlagatexta.
Mynd/elg: Á dögunum voru teknar fyrstu skóflustungurnar að nýjum leikskóla Vesturbergs.