Fast skotið vegna Hópsskóla
Föst skot ganga á milli meiri- og minnihlutans í bæjarstjórn og bæjarráði Grindavíkur vegna Hópsskóla. Minnihlutinn lagði fyrir nokkru fram tillögu þess efnis að opnun skólans yrði frestað fram á næsta ár en til stendur að opna hann við upphaf nýs skólaárs í haust. Minnihlutinn (D) heldur því fram að með frestuninni mega spara um 100 milljónir. Tillagan var felld af meirihlutanum (S og B) sem segir kostnaðartölur minnihlutans úr lausu lofti gripnar.
Á nýlegum fundi Fræðslu- og uppeldisnefndar Grindavíkur var tekið undir sjónarmið minnihlutans. Nefndin telur óeðlilegt að stofnsetja nýjan grunnskóla án umræðu í nefndinni. Hún telur að eðlilegra hefði verið að móta innra starf skólans áður en staða skólastjóra var auglýst. Því leggur nefndin til að opnun skólans verði frestað til haustins 2010.
Sigmar J. Eðvarðsson, bæjarfulltrúi D-lista segir það meirihlutanum til vansa að sniðganga faglega nefnd sem Fræðslu- og uppeldisnefndin sér. Hann lagði fram tillögu þess efnis á síðasta bæjarráðsfundi að farið yrði eftir áliti nefndarinnar. Sú tillaga var felld af meirihlutanum.
„Það er greinilegt að meirihlutinn ætlar ekki að viðhafa ábyrga fjármálastjórn í þessu máli frekar en svo mörgum öðrum og er ljóst að í þeim pólítísku hrossakaupum sem fram hafa farið upp á síðkastið í starfsmannaráðningum, á að ráða nýjan skólastjóra í Hópsskóla með hraði hvað sem það kostar," segir Sigmar í bókun sem hann lagði fram í framhaldinu.
„Það er alveg ljóst að meirihluti B og S lista mun ekki þiggja ráð Sjálfstæðismanna um fjármálastjórn. Sjálfstæðismenn hafa sýnt það á mjög afgerandi hátt að þeim er síst treystandi varðandi fjármál eins og aðstæður í efnahagsmálum landsmanna bera vitni um eftir 18 ára valdatímabil Sjálfstæðismanna. Meirihluti B og S lista vísar aðdróttunum um hrossakaup á stöðu skólastjóra á bug og minnir á að margur heldur mig sig," segir í bókun sem meirihlutinn S og B lista lagði fram.
----
Mynd: Fyrsta skóflustunga að nýjum Hópsskóla var tekin síðastliðið sumar. Nú er deilt um framkvæmdina.
Tengt efni:
Hópsskóli: Fræðslunefnd vill frestun
Nýr Hópsskóli: Segja frestun spara 100 milljónir
Fundargerð bæjarráðs 25. mars
Fundargerð Fræðslu og uppeldisnefndar 17. mars
Fundargerð bæjarstjórnar 11. mars