Fréttir

Farþegum fækkar en árið 2019 enn yfir langtímaspá
Þriðjudagur 29. janúar 2019 kl. 10:30

Farþegum fækkar en árið 2019 enn yfir langtímaspá

Í dag var kynnt ný farþegaspá um fjölda farþega sem fer um Keflavíkurflugvöll árið 2019 á morgunfundi Isavia á Hilton Reykjavík Nordica.
 
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, sagði í opnunarræðu sinni að Isavia hefði síðan árið 2015 birt spá um fjölda farþega og vanalega í lok nóvember. Spánni fyrir 2019 hafi hins vegar seinkað vegna óvissu á markaði. „Við teljum þó stöðuna hafa skýrst umtalsvert undanfarið og erum við tilbúin að setja fram okkar sýn fyrir árið 2019,“ sagði Björn Óli.
 
Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar, kynnti farþegaspá Isavia. Í erindi hans kom fram að spáin geri ráð fyrir að 8,9 milljón farþegar fari um Keflavíkurflugvöll í ár, samanborið við 9,8 milljónir í fyrra sem er 8,7% fækkun. Heildarfjöldinn í spánni fyrir 2019 er tæplega 200 þúsund fleiri en fóru í gegnum Keflavíkurflugvöll allt árið 2017.
 
Í spánni fyrir 2019 er mest fækkunin í skiptifarþegum, en talið er að þeim muni fækka um 18,7% frá fyrra ári. Það skýrist helst af því að áfangastaðir munu að öllum líkindum fækka, sem og tíðni ferða til vissra áfangastaða. Þá hefur sætaframboð flugfélaganna áhrif á tengimöguleikana sem og farþegafjöldann.
 
Brottfararfarþegum fækkar hins vegar minna. Athygli vekur að komu- og brottfararfarþegum fjölgar yfir sumarmánuðina frá árinu 2018. Í júní verða þeir um 4% fleiri en á sama tíma í fyrra, þeim fjölgar um 5,7% í júlí og að lokum um 7,2% í ágúst. Þá gerir farþegaspáin ráð fyrir að komu- og brottfararfarþegum fjölgi í nóvember um 1,7% og í desember um 4,6%.
 
Í erindi Hlyns var einnig vísað í þá langtíma farþegaspá sem gerð var í tengslum við þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar árið 2015. Þar kom fram að þrátt fyrir fækkun í ár þá sé fjöldi ferðamanna enn langt yfir langtímaspánni sem gerð var fyrir tæpum fjórum árum.
 
Hlynur vék einnig að uppbyggingarþörf á Keflavíkurflugvelli til að mæta þeim fjölda farþega sem áætlað er að fari um flugvöllinn í ár. Þar kom fram að til þess að betur væri hægt að þjónusta farþegafjöldann sem nú þegar fari í gegnum Keflavíkurflugvöll, þurfi að bæta um 10 þúsund fermetrum við flugstöðina og er fyrirhuguðum framkvæmdum ætlað að mæta því.
 
Hlynur fór einnig yfir niðurstöður alþjóðlegrar þjónustukönnunar – ASQ Survey – þar sem ánægja farþega er meiri milli ára þrátt fyrir uppbyggingaþörfina. Fer Keflavíkurflugvöllur úr 27. sæti árið 2017 í 17. sæti fyrir árið 2018. Um 110 flugvellir í Evrópu eru í  ASQ þjónustukönnuninni.
 
Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, ræddi í erindi sínu um ný lög um Íslandsstofu og breytt skipulag á samstarfsvettvangi atvinnulífs og stjórnvalda. Hann ræddi viðhorf erlendra ferðamanna gagnvart áfangastaðnum Íslandi og áhuga þeirra á íslenskum vörum. Flugið hefur opnað markaði og fjölgað viðskiptatækifærum innanlands, hvort sem um er að ræða vörur, þjónustu eða fjárfestingar. Til að mynda hafi útflutningur á ferskum fiski til Bandaríkjanna nánast þrefaldast frá árinu 2009 og má þakka betri og örari flugsamgöngum til og frá Bandaríkjunum fyrir það.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024