Farþegarnir útskrifaðir í dag og maturinn sendur sóttvarnalækni
Farþegarnir fimm, sem fluttir voru veikir á sjúkrahús úr erlendri farþegaþotu, sem lenti óvænt á Keflavíkurflugvelli rétt fyrir klukkan sjö í morgun, eru allir á batavegi og verða útskrifaðir í dag.
Sýnishorn af matnum, sem fólkið borðaði um borð í vélinni hefur verið sent sóttvarnalækni til skoðunar.
Vélin er Airbus 340 breiðþota frá Lufthansa, á leið frá New York til Munchen í Þýskalandi. Yfir miðju Norður-Atlantshafinu veiktust fimm farþegar skyndilega og svo hastarlega að flugstjórinn ákvað að lenda á næsta velli, sem var Keflavíkurflugvöllur.
Þar biðu læknar og sex sjúkrabílar og eftir að hafa skoðað fólkið var ákveðið að flytja fjóra á Landspítalann og einn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík.