Fréttir

Farþegar easyJet í hrakförum á Keflavíkurflugvelli
Svona er útsýnið sem farþegar hafa um borð í þotunni á Keflavíkurflugvelli.
Fimmtudagur 19. janúar 2017 kl. 14:23

Farþegar easyJet í hrakförum á Keflavíkurflugvelli

Farþegar með easyJet á frá Keflavík til Liverpool hafa heldur betur lent í hrakförum í dag. Farþegarnir voru komnir um borð í flugvélina kl. 11:40 í morgun og eru þar enn án þess að vélin sé komin loftið.

Vandræði farþeganna hófstu strax þegar hleypa átti farþegum um borð í vélina. Þá kom upp bilun í tölvukerfi þannig að skráning farþega tók dágóðan tíma.

Þegar flugvélin var tilbúin til brottfarar frá flugstöðinni áttaði farþegi sig á því að hann var með rafhlöðu í farangri sem ekki má vera í farangurslest flugvélarinnar vegna eldhættu. Fjarlægja þurfti allan farangur úr lest vélarinnar til að finna ferðatöskuna með rafhlöðunni. Rafhlaðan fannst og var ekki komið fyrir í farþegarými, þar sem hún er örugg.

Þegar hér var komið við sögu þurfti að afísa flugvélina þar sem það var byrjað að snjóa á Keflavíkurflugvelli.


Nú var flugvélin loks klár til brottfarar. Þá áttaði annar farþegi sig á því að hann hafði einnig rafhlöðu í sinni tösku, sem ekki mátti vera í farangursrýminu. Aftur þurfti því að taka farangurinn úr flugvélinni, leita að rafhlöðu og koma henni í örugga geymslu.

Nú þurfti að afísa flugvélina öðru sinni. Þegar því var lokið var allt klárt til brottfarar.

Nú var farið að kafsnjóa á Keflavíkurflugvelli og snjómokstur í gangi á flugbrautum. Vélin gat því ekki farið í loftið. Nú þurfti að afísa í þriðja skiptið frá því upphaflega átti að fara í loftið.

Um kl. 14 ræddi svo flugstjóri vélarinnar við farþega um að skoða þurfi framhaldið, þar sem áætlun vélarinnar hafi raskast það mikið að ekki væri víst að hún fengi að lenda í Liverpool. Flugstjórinn þyrfti að heyra í sínum yfirmönnum með það.

Farþegi sem Víkurfréttir hafa verið í samskiptum við um borð í vélinni segist sjá lítið út úr vélinni vegna afísingarvökva sem leki niður rúður vélarinnar.

Þegar þessi frétt er birt hafa farþegarnir verið tæpar þrjár klukkustundir um borð í vélinni á Keflavíkurflugvelli og vita ekki hvert framhaldið verður.

Public deli
Public deli