Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Farsældinni fagnað í Hljómahöll
Útskriftarnemarnir.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 5. nóvember 2023 kl. 06:04

Farsældinni fagnað í Hljómahöll

Tíu starfsmenn Reykjanesbæjar útskrifuðust með viðbótardiplómu farsældar barna frá Háskóla Íslands. Börnin ávallt í fyrsta sæti.

Innleiðingarteymi í verkefninu Farsæld barna hjá Reykjanesbæ blés til veislu miðvikudaginn 18. október í Stapa í Hljómahöll. Tilefnið var að fagna þeim áföngum sem hafa náðst hingað til í verkefninu og auka sýnileika þess. Viðburðurinn markaði kaflaskil í vegferðinni þar sem framkvæmd verkefnisins fer nú á fulla ferð og innleiðingin hefst með krafti eftir góðan og mikilvægan tíma í undirbúning og þróun.

Viðburðurinn var vel sóttur þar sem um 100 manns mættu frá ólíkum áttum. Fulltrúum frá öllum leik-, grunn- og framhaldsskólum í sveitarfélaginu, starfsfólki á skrifstofu velferðar- og menntasviðs sveitarfélagsins, fulltrúum frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, lögreglu og íþróttahreyfingunni, ásamt kjörnum fulltrúum var boðið á viðburðinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Farsæld barna eða samþætting þjónustu í þágu farsældar barna er verkefni sem öll sveitarfélög, stofnanir og þjónustuveitendur sem vinna með börnum og ungmennum á landinu taka þátt í. Verkefnið kemur frá lögum sem eru gjarnan kölluð farsældarlögin eða lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Markmiðið með lögum um samþætta þjónustu er að bæta enn frekar þjónustu við börn og fjölskyldur með því að stuðla að samvinnu og samstarfi þjónustuveitenda barna og fjölskyldna. Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi.

Það var þétt setinn bekkurinn í Hljómahöllinni.

Á viðburðinum var upplýsingasíða um farsæld barna opnuð formlega á vefsíðu Reykjanesbæjar þar sem allir íbúar, foreldrar, starfsfólk skóla, stofnana og aðrir geta nálgast upplýsingar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna hjá Reykjanesbæ. Síðuna er að finna á forsíðu Reykjanesbæjar og undir Þjónusta á síðu Reykjanesbæjar.

Einnig voru verkferlar um samþættingu þjónustu formlega teknir í notkun, ferlarnir munu auðvelda starfsfólki sveitarfélagsins til þess að vinna með þessa nýju nálgun í þjónustu.

Á viðburðinum voru einnig veittar viðurkenningar til útskriftarnema sem útskrifuðust með viðbótardiplómu farsældar barna frá Háskóla Íslands síðastliðið vor. Tíu starfsmenn Reykjanesbæjar útskrifuðust úr náminu og að sögn Eydísar Rósar Ármannsdóttur, verkefnastjóra, er það mikill styrkur fyrir sveitarfélagið að starfsfólk sæki sér aukna þekkingu til þess að leggja sitt að mörkum í innleiðingu laganna í sveitarfélaginu.

„Í stóru þróunarverkefni sem þessu er samvinna allra aðila það mikilvægasta. Allir verða að leggja sitt að mörkum til þess að vinna að farsæld barna, börn, foreldrar, starfsfólk skóla, heilsugæslu, lögreglu og starfsfólk og þjálfarar íþrótta- og tómstunda.

Það er þó mikilvægt að hafa í huga að lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna koma ekki í staðinn fyrir þjónustu sem þegar ber að veita, heldur eru þau ætluð sem viðbót til að greiða aðgengi barna og foreldra, tryggja heildarsýn lykilaðila og til þess að þeir sem veita þjónustu vinni saman að hagsmunum barnsins. Þetta verkefni hófst má segja árið 2022 þegar Alþingi samþykkti farsældarlögin svokölluðu. Við á velferðar- og menntasviði Reykjanesbæjar höfum lagt okkur öll fram við að innleiða þessi lög hjá sveitarfélaginu og erum mjög stolt af því að kynna vinnuna hér í dag í Hljómahöll. Mikil vinna var lögð í vefsíðuna, þar ættu allir að geta fundið svör við þeim spurningum sem upp vakna en við tökum líka glöð við ábendingum. Þetta verkefni þurfum við öll að vinna að saman, hvort sem það eru börnin eða þeir aðilar sem vinna að farsæld þeirra. Við erum sömuleiðis mjög stolt af því starfsfólki Reykjanesbæjar sem útskrifaðist með viðbótardiplómu farsældar barna frá Háskóla Íslands. Þetta er upphafið að góðum hlutum, það er ég sannfærð um,“ sagði Eydís.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, er stoltur af vinnunni sem hefur verið innt af hendi hjá starfsfólki Reykjanesbæjar. „Ég er mjög stoltur, gaman að sjá þessa kynningu. Það er búið að vera mikill framgangur í verkefninu og við erum á fleygiferð að innleiða þetta inn í stjórnsýsluna hjá okkur. Við fréttum af þessu árið 2021 þegar Ásmundur Einar Daðason, þáverandi félags- og barnamálaráðherra, kynnti lögin sem tóku síðan gildi í fyrra. Þessi vinna hefur verið í gangi allar götur síðan og mér sýnist Reykjanesbær standa mjög vel að vígi varðandi innleiðingu þessara flottu laga,“ sagði Kjartan.

Jóhanna Helgadóttir var ein útskriftarnemanna. „Það var félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands sem stóð fyrir náminu og það er gaman frá því að segja að deildin fékk þetta upp í hendurnar að vori og þurfti að vera klár með námið um haustið og ég myndi segja að frábærlega hafi tekist til. Það voru í heildina um 180 manns sem skráðu sig í námið sem fór fram í beinni á netinu í fjarfundarbúnaði, alltaf á miðvikudögum. Ég hef alltaf haft að leiðarljósi í mínu starfi sem kennari að mæta börnunum eins og þau séu mín eigin. Öll nálgun í þessu námi miðaði út frá því, að setja börnin ávallt í fyrsta sæti,“ sagði Jóhanna að lokum.

Vilborg Pétursdóttir, teymisstjóri barna- og fjölskylduteymis, Einar Trausti Einarsson, yfirsálfræðingur, og Eydís Rós Ármannsdóttir, verkefnastjóri á Velferðarsviði Reykjanesbæjar.
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, stýrði dagskránni með styrkri hönd og þær Sigrún Gróa Magnúsdóttir sem spilaði á píanó og hin unga Lovísa Rut Ágústsdóttir sem spilaði á fiðlu, léku ljúfa tóna.