Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Farið verði í úttekt á virkjunarkostum
Laugardagur 31. október 2009 kl. 09:30

Farið verði í úttekt á virkjunarkostum


Í nýrri þingsályktunartillögu er lagt til að iðnarðaráðherra verði falið að láta Orkustofnun í samráði við Umhverfisstofnun taka saman yfirlit yfir þær virkjanir sem ráðgert er að framleiði orku fyrir 360 tonna álverksmiðju í Helguvík, 360 þúsund tonna álverksmiðju við Húsavík og 40 þúsund tonna stækkun álbræðslunnar í Straumsvík. Bent er á ýmsa þætti sem kalla á endurskoðun fyrirliggjandi áforma um orkufreka stóriðju hérlendis. Því þurfi að fá sem fyrst skýrt yfirlit um orkuöflunarþáttinn. Flutningsmenn tillögunnar er þingmenn VG, þau Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Atli Gíslason, Lilja Mósesdóttir og Davíð Stefánsson.

Deildar meiningar eru uppi um það hvort næg orka verði fáanleg fyrir þessi áform. Nýleg grein Sigmundar Einarssonar, jarðfræðings, hefur vakið mikla umræðu en í greininni veltir hann upp þeirri spurningu hvort hægt sé að virkja endalaust og vitnar í margar heimildir sem hann byggir grein sína á.
Sigmundur heldur því fram að álver í Helguvík og á Bakka myndu soga til sín nær alla orkuna frá orkulindum á Suður, Suðvestur- og Norðausturlandi, ekki bara frá jarðvarmavirkjunum heldur einnig frá vatnsaflsvirkjunum. Þar með yrði farin nánast öll hagkvæmasta orkan í landinu.

Forsvarsmenn Norðuráls og fleiri eru ósammála þessu og segja næga orku til á Suðvesturhorninu til að knýja álverið í Helguvík. Samkvæmt fyrirliggjandi mati muni virkjanir á Reykjanesi, Hellisheiði og Þjórsá geta skilað 760MV. Þá séu ótaldir virkjunarkostir í t.d. Eldvörpum, Gráuhnúkum og Krýsuvík, sem talin er geta skilað 500MW samtals. Samanlagt geti þessir virkunarkostir skilað 1,500 MW. Orkuþörf álversins í Helguvík verði hins vegar 625 MW.

Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir því að úttektin liggi fyrir þann 15. desember nk.

Sjá þingsályktunartillöguna nánar hér:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024