Farangur til London og Parísar víxlaðist
Allur farangur sem átti að fylgja farþegum Flugleiða frá Keflavík til London fór með vél félagsins til Parísar, en allur farangurinn sem átti að fara með farþegum til Parísar fór til London. Í Morgunblaðinu í dag segir Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Flugleiða að svo virðist sem mistök hafi átt sér stað hjá fyrirtækinu IGS sem annast hleðslu vélanna. Guðjón segir að það eigi eftir að skoða hvernig þetta hafi gerst, en mistökin hafi ekk komið í ljós fyrr en vélarnar hafi verið komnar á áfangastaði. Þegar mistökin komu í ljós var strax hafist handa við að koma farangrinum til eigenda sinna, en ljóst er að farþegar verði fyrir töluverðum óþægindum vegna þessa.