Fréttir

Fannar áfram í bæjarstjórastól Grindavíkur
Miðvikudagur 1. ágúst 2018 kl. 22:06

Fannar áfram í bæjarstjórastól Grindavíkur

-nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks klofnaði í málinu

Fannar Jónasson verður áfram í bæjarstjórastólnum í Grindavík en á lokuðum bæjarstjórnarfundi í dag var ráðning hans afgreidd og bæjarráði gert að klára samning við hann. Ráðningin var þó á sérstökum nótum því nýr meirihluti Sjáflstæðisflokks og Framsóknar í nýrri bæjarstjórn klofnaði í málinu. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks með stuðningi fulltrúa Miðflokksins greiddu Fannari atkvæði en Sigurður Óli Þorleifsson, Framsóknarmaður og forseti bæjarstjórnar greiddi Þorsteini Gunnarssyni atkvæði sitt en það gerðu líka fulltrúar Samfylkingar og Raddar unga fólksins.

Fannar fékk atkvæði Sjálfstæðismannanna Hjálmars Hallgrímssonar, Birgittu Kárdóttur og Guðmundar Pálssonar og svo atkvæði Hallfríðar G. Hólmgrímsdóttur frá Miðflokknum. Það vekur óneitanlega athygli í svona stóru máli að fulltrúi í meirihlutanum, Framsóknarmaðurinn Sigurður Óli, styður ekki ráðningu bæjarstjórans.
Eins og komið hefur fram fór fundurinn fram fyrir luktum dyrum og fundurinn var heldur ekki sendur út eins og venja er.

Fannar sinnti bæjarstjórastarfinu með síðasta meirihluta Grindavíkur frá ársbyrjun 2017. Víkurfréttir tóku viðtal við hann skömmu fyrir kosningar sem sjá má hér í fréttinni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024