Fann vegabréf í Róm
Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af erlendum karlmanni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrradag. Var maðurinn að koma með flugi frá Osló og vaknaði grunur um að hann hefði ekki hreinan skjöld þegar að því kom að hann þyrfti að framvísa vegabréfi. Það kom líka á daginn að hann átti ekkert í skilríkjunum sem hann reiddi fram heldur voru þau í eigu annars einstaklings.
Maðurinn var fluttur á lögreglustöð.
Skoðun á vegabréfinu leiddi í ljós að það hafði verið tilkynnt glatað eða stolið. Maðurinn játaði við yfirheyrslur að hann ætti ekki vegabréfið en tjáði lögreglunni að hann hefði fundið það í poka á götu í Róm. Þá framvísaði hann kennivottorði, sem var á sama nafni og vegabréfið. Leikur grunur á að vottorðið hafi verið falsað. Mál mannsins er komið í hefðbundið ferli.